„Reynt að finna sök hjá öðrum“

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Magnússon segir sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum reyna að finna sök hjá öðrum varðandi klofning flokksins í sveitarfélaginu, fremur en að axla ábyrgð á eigin mistökum.

Í orðsendingu til mbl.is segist Páll hafa haldið sig til hlés í kosningabaráttunni í Vestmannaeyjum til þess að gæta heildarhagsmuna Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi öllu. Þetta segist Páll hafa gert „að mjög vel yfirveguðu ráði“ og eftir ráðfærslu við „bestu og reyndustu menn“.

„Eftir að flokkurinn klofnaði í Eyjum var ljóst að mjög stór hluti hans myndi fylgja hinu nýja framboði að málum. Reyndin varð sú að líklega gengu 30-40% af fylgjendum Sjálfstæðisflokksins til liðs við Heimaeyjarlistann. Ég leit og lít enn á það sem skyldu mína sem oddvita flokksins í kjördæminu að  laða þetta fólk aftur til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Páll í orðsendingu sinni.

Hann segist ekki gera mikið með „þessi fremur vanstilltu viðbrögð“ fulltrúaráðsins í Vestmannaeyjum, sem í gær lýsti yfir fullu vantrausti á Pál vegna þess sem ráðið segir fordæmalausa framgöngu Páls í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, en Páll lýsti ekki yfir stuðningi við lista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum í aðdraganda kosninga.

„Flokkurinn klofnaði í herðar niður hér í Eyjum og tapaði öruggum meirihluta. Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum. Það er út af fyrir sig mannlegt en aðalatriðið er að finna leiðir til sátta þegar sjatnar í örvæntingunni og reiðinni,“ skrifar Páll.

Orðsending Páls í heild sinni                        

„Ástæðan fyrir því að ég hélt mig til hlés í kosningabaráttunni í Vestmannaeyjum var sú að þannig taldi ég mig best gæta heildarhagsmuna Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi öllu. Þetta gerði ég að mjög vel yfirveguðu ráði og eftir ráðfærslu við bestu og reyndustu menn.

Eftir að flokkurinn klofnaði í Eyjum var ljóst að mjög stór hluti hans myndi fylgja hinu nýja framboði að málum. Reyndin varð sú að líklega gengu 30-40% af fylgjendum Sjálfstæðisflokksins til liðs við Heimaeyjarlistann. Ég leit og lít enn á það sem skyldu mína sem oddvita flokksins í kjördæminu að  laða þetta fólk aftur til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn.

Ég geri svo sem ekki mikið með þessi fremur vanstilltu viðbrögð í Ásgarði í gærkvöldi. Flokkurinn klofnaði í herðar niður hér í Eyjum og tapaði öruggum meirihluta . Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum. Það er út af fyrir sig mannlegt en aðalatriðið er að finna leiðir til sátta  þegar sjatnar í örvæntingunni og reiðinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert