Borgarstjóri ber fyrir sig Gústaf

Engir sætabrauðsdagar í borgarstjórn á fyrsta fundi eftir kosningar.
Engir sætabrauðsdagar í borgarstjórn á fyrsta fundi eftir kosningar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þennan trúnaðarbrest þarf að rannsaka,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, í ræðustól borgarstjórnar í dag. Þetta voru viðbrögð við að Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, upplýsti í ræðustól í umræðum um breytingu á skipulagi nefnda hver fulltrúi minnihlutans yrði í nýju umhverfis- og heilbrigðisráði.

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, stóð í rökræðum við Líf um breytingartillögur meirihlutans er varða verksvið nefnda. Líf lauk síðan andsvari með því að þakka fyrir að fá að starfa áfram með Mörtu að umhverfismálum í nýrri umhverfis- og heilbrigðisnefnd. Marta gerði því athugasemd vegna þess að minnihlutinn hafði aldrei upplýst meirihlutann um hverja hann hygðist kjósa í nefndir borgarinnar og spurði Líf hvernig hún hefði vitneskju um áform Mörtu.

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, gerði verulegar athugasemdir vegna meints leka. Hann upplýsti að starfsmaður borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins hefði sent tillögur minnihlutans til starfsmanns borgarinnar í kjölfar þess að minnihlutinn hafði verið ítrekað beðinn um að senda frá sér sínar tillögur. Eyþór bætti síðan við að þetta hefði verið sent í trúnaði og ef svo væri ekki, er það furðulegt að minnihlutinn hafi ekki verið upplýstur um hverjar tillögur meirihlutans voru.

Gústafi Níelssyni að kenna

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði að hefð hefði myndast fyrir þessu verkferli að senda frá sér tillögur sínar vegna þeirra deilna sem tilnefning Gústafs Níelssonar í mannréttindaráð hefði skapað á sínum tíma.

„Hér talar borgarstjóri um það að hér þurfi að vega og meta fólk og þess vegna þurfa upplýsingar að liggja fyrir löngu fyrir fundi. Þurfti að vega og meta mig sem er með kjörbréf sem kjörinn borgarfulltrúi? Er það kannski bara geðþóttaákvörðun borgarstjórans hverju sinni hverjir eru vegnir og metnir? Ríkir hér jafnræði? Nei það ríkir ekki jafnræði hér í þessum sal. Hér hafa gögn legið fyrir, hér hafa sumir haft aðgengi að þessum gögnum og aðrir ekki,“ sagði Marta og fór fram á rannsókn á málinu þar sem þetta snérist að hennar nafni.

Mat Eyþórs var að engin hefð hafi myndast þar sem þetta hefur aldrei áður verið gert með þessum hætti. Örn Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ítrekaði síðan spurningar minnihlutans um hver það var sem lak umræddum upplýsingum. Þeirri spurningu var þó ekki svarað.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti og borgarfulltrúi Flokks fólksins, gagnrýndi meirihlutann fyrir að flissa á meðan minnihlutinn hélt ræður. „Er það þetta sem bíður [næstu fjögur ár] fliss, háð, spott, gjamm og inngrip?“

Lif bar fyrir sig að henni hefði borist nöfn til eyrna í einkasamtali og frammi á göngum, en vildi ekki upplýsa hver hefði sagt henni frá tilnefningu minnihlutans. Marta hafði uppi spurningu hvort Líf hefði vitað hvernig fulltrúar minnihlutans hafi ætlað að kjósa í leynilegri kosningu. Líf sagði þá að lítil ástæða væri fyrir því að halda að atkvæðagreiðslur væru leynilegar þar sem niðurstöðurnar hefðu verið 11 gegn 12 fyrr á fundinum.

Fundurinn hófst klukkan 14 og stendur enn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert