Gangamenn hafi lent í ótal óvæntum aðstæðum

Við gangamunna Vaðlaheiðarganga Eyjafjarðarmegin.
Við gangamunna Vaðlaheiðarganga Eyjafjarðarmegin. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sigurður R. Ragnarsson, stjórnarformaður Ósafls og forstjóri ÍAV, segir það kaldar kveðjur frá framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga hf. að fullyrða að ekkert sérstakt hafi komið upp við vinnu í göngunum og að engar skýringar séu á tillögu verktakans við verklokadagsetningu.

Val­geir Berg­mann, fram­kvæmda­stjóri Vaðlaheiðarganga hf., sagði í samtali við mbl.is í gær að fyrirtækið væri ekki sátt við verklokstafir Vaðlaheiðaganga og að ekki hafi fengist skýringar á hvað valdi töfunum. Ný drög að ver­káætl­un Vaðlaheiðarganga gera ekki ráð fyr­ir að göng­in verði opnuð fyrr en í janú­ar á næsta ári en fyrri áætlan­ir höfðu gert ráð fyr­ir að göng­in yrðu opnuð í sum­ar.

„Það er óvenjulegt að sjá ábyrgðarmenn verka tjá sig um drög að áætlunum sem enn eru til umræðu á verkfundum,“ segir Sigurður. Þá segir hann að það sé alkunna að við framkvæmdina hafi aðstæður verið algjörlega fordæmalausar og bendir hann í því samhengi á úttektarskýrslu Friðriks Friðrikssonar, fyrrverandi formanns stjórnar Vaðlaheiðarganga, sem unnin var fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið árið 2017.

„Skýrslan staðfestir að gangamenn í Vaðlaheiðargöngum hafi lent í flestum þeim óvæntu aðstæðum sem upp geta komið við gangagröft. Verktakinn hefur þurft að hafa mannskap og tæki að störfum einu og hálfu ári lengur en til stóð,“ segir Sigurður.  

Þá segir hann einnig að verktakinn hafi um langt skeið óskað eftir viðræðum um tilhögun verkloka án mikilla undirtekta. „Það eru því í hæsta máta kaldar kveðjur að þegar verktaki leggur fram drög til umræðu skuli forsvarsmaður verkkaupa telja eðlileg viðbrögð að lýsa því yfir í fjölmiðlum að ekkert sérstakt hafi komið upp og engar skýringar séu á tillögu verktakans að verklokadagsetningu. Tíminn væri að mati verktaka miklu betur nýttur í að ræða um þær aðgerðir sem hægt er að grípa til með samvinnu til að hraða þessu verki,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert