Heiðra landsliðið með lágflugi yfir borginni

Íslensku leikmennirnir eru væntanlegir heim til Íslands í kvöld.
Íslensku leikmennirnir eru væntanlegir heim til Íslands í kvöld. mbl.is/Eggert

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er á leiðinni heim frá Rússlandi eftir þátttöku sína á HM í knattspyrnu sem lauk í gær. Liðið flýgur ásamt starfsmönnum og stjórnendum KSÍ, fjölmiðlamönnum og fleirum sem starfað hafa við heimsmeistaramótið undanfarnar vikur með Boeing 757-þotu Icelandair sem var flogið sérstaklega út í morgun til að sækja liðið.

Þeim til heiðurs verður flugvélinni flogið í lágflugi yfir höfuðborgarsvæðið fyrir lendingu á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair má gera má ráð fyrir að flugvélin verði yfir borginni um klukkan 20:00 í kvöld.

Heimkoman verður með öðru sniði en þegar liðið kom heim eftir þátttöku sína á EM í Frakklandi fyrir tveimur árum. Engin formleg móttaka er áætluð í kvöld en á vef Vísis er haft eftir Ómari Smárasyni, fjölmiðlafulltrúa KSÍ, að liðið mun halda í höfuðstöðvar KSÍ eftir lendingu í Keflavík þar sem haldin verður sérstök móttaka fyrir liðið með fjölskyldum landsliðsmanna og starfsmanna KSÍ.

Stuðningsmenn íslenska liðsins geta hins vegar litið til himins yfir miðborginni um klukkan átta í kvöld og boðið strákana okkar velkomna heim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert