„Engin lausn í sjónmáli“

Deilan er gríðarlega þung og engin lausn í sjónmáli.
Deilan er gríðarlega þung og engin lausn í sjónmáli. mbl.is/Árni Sæberg

„Við fórum ekki brosandi út af þessum fundi,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, í samtali við mbl.is eftir að fundi þeirra með samninganefnd ríkisins lauk nú rétt fyrir hádegi. Engin sátt náðist á fundinum

„Samninganefnd ríkisins lítur svo á, að mér skilst, að viðræður séu á byrjunarpunkti eftir að samningur var felldur. Okkur þykir það náttúrulega mjög alvarlegt í ljósi stöðunnar og þess sem á undan er gengið,“ segir Katrín Sif.

Henni þykir stjórnvöld sýna ábyrgðarleysi með því að taka svona léttvægt á málunum. „Deilan er gríðarlega þung og engin lausn í sjónmáli. Við förum frekar daprar af þessum fundi en höldum náttúrulega keikar áfram, einhvers staðar hlýtur þetta að taka enda.“

Næsti fundur hefur verið boðaður á fimmtudaginn eftir viku, en að sögn Katrínar Sifjar hafa ljósmæður nú sett af stað atkvæðagreiðslu um yfirvinnuverkfall. „Atkvæðagreiðslan stendur fram á sunnudag og ef niðurstaðan er sú að félagsmenn samþykkja eins og vilji félagskvenna hefur bent til, á munum við bera út verkfallsboðun á mánudaginn. Verkfall mun þá að öllum líkindum hefjast um miðjan næsta mánuð.“

Á annan tug uppsagna ljósmæðra mun taka gildi nú um mánaðamótin. „Það verður stórt skarð höggvið í hópinn strax um mánaðamótin og ég er ekki að sjá hvernig þær sem eftir eru ætla að standa undir og leggja starf sitt og nafn að veði til þess að halda uppi þjónustunni og tryggja öryggi skjólstæðinga okkar við svona bágar aðstæður. Þetta er gríðarlega alvarlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert