Ljósmæður vinna „ekki fyrir ánægjuna eina“

Ljósmæður á Landspítala þurfa að vinna undir miklu álagi í …
Ljósmæður á Landspítala þurfa að vinna undir miklu álagi í júlí þar sem uppsagnir tólf hafa tekið gildi og samþykkt hefur verið yfirvinnubann. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta eru því blendnar tilfinningar, baráttuhugur en líka dapurleiki,“ segir Guðrún Gunnlaugsdóttir, ljósmóðir í samtali við blaðamann mbl.is. Hún er ein þeirra tólf ljósmæðra sem lét af störfum í dag og segir mikið álag mun vera á kollegum sínum á Landspítalanum í júlí.

Guðrún Gunnlaugsdóttir
Guðrún Gunnlaugsdóttir

Guðrún segir framhaldið ekki alveg á tæru hjá sér, en að sumar ljósmæður hafi þegar ráðið sig í önnur störf. „Ég ætla eitthvað að vera í fríi, maður fær útborguð launin sín ásamt uppgjöri og orlofi. Þannig að næstu daga erum við flestar að hugsa okkar mál, tökum okkur tíma í það. Einhverjar eru búnar að ráða sig í einhverskonar vinnu og afleysingu í heilbrigðisþjónustunni,“ segir hún.

Samkvæmt Guðrúnu er ekki erfitt fyrir ljósmæður að finna önnur störf þar sem vantar hjúkrunarfræðinga víða, sérstaklega núna yfir sumartímann þegar margir eru í fríi. „Það þarf ekki annað en að opna Morgunblaðið til þess að sjá það. Við getum gengið inn víða þó að orðin er krafa um sérhæfingu á mörgum stöðum.“

Mikil eftirsjá eftir starfinu

Ljósmóðirin segir mjög blendnar tilfinningar vegna stöðunnar. „Það er baráttuhugur í ljósmæðrum, jafnvel mikil eftirsjá eftir starfinu. Við vitum að við erum góðar í því sem við höfum menntað okkur til þess að gera og getum sinnt þessu starfi vel. Margar okkar eru með margra ára reynslu, þannig að það er að fara mikil reynsla af deildum,“ segir Guðrún.

Hún segist hugsa mikið til samstarfsfólksins sem eftir eru á Landspítalanum vegna þess álags sem bætist við eftir uppsagnirnar.

„Við höfum allar staðið erfiðar vaktir og vitum alveg hvað það er að vera á erfiðum vöktum og kannski ráða ekki við aðstæður. Það verður undirmannað. Þetta eru því blendnar tilfinningar, baráttuhugur en líka dapurleiki.“

Skór þeirra tólf ljósmæðra sem létu af störfum í dag.
Skór þeirra tólf ljósmæðra sem létu af störfum í dag. Ljósmynd/Aðsend

Snúa mögulega aftur til starfa

Blaðamaður spyr hvort einhverjar líkur séu á því að ljósmæður snúi aftur til starfa ef komið verði til móts við kröfur þeirra í yfirstandandi kjaradeilu. „Ég held að ef farið verði eftir kröfum ljósmæðra að farið verði í leiðréttingu launa geti það gerst,“ svarar Guðrún.

Hún bendir jafnframt á að þeirra mat sé að það séu margir þættir í starfsumhverfi ljósmæðra sem þarf að bæta umfram launakjör þeirra. „þarf fleiri stöðugildi og húsnæðið samræmist ekki nútímakröfum. Við vitum að þetta er ekki hægt að laga einn, tveir og þrír. En ef við sjáum fram á það að það sé vilji stjórnvalda að ganga í þessi mál, þá slær hjarta okkar á þessum stað og að margar okkar, ef ekki flestar, væru þá tilbúnar að snúa aftur til starfa.“

Samkvæmt Guðrúnu gera ljósmæður sér fyllilega grein fyrir að ekki sé hægt að laga allt í starfsumhverfinu strax, en staðhæfir að launakjörin séu eitthvað sem á að vera hægt að ganga í á stuttum tíma. „Það verður bara að gera það áður en að í óefni fer. Það er bara hrikalegt ástand þarna á þessum stað, Landspítalanum,“ bætir hún við

Vilja ekki hræða konur á meðgöngu

Guðrún segist hafa miklar áhyggjur vegna ástandsins. „Það svo erfitt að hugsa til þess að þetta gæti orðið til þess að eitthvað gerist sem ekki er hægt að taka tilbaka. Við erum núna að fara inn í júlímánuð og leggja mikla ábyrgð á herðar þeirra sem eftir eru, sem eru of fáar. Þetta er sorglegt.“

„Við heyrum mikið af því. Konur eru mjög áhyggjufullar,“ svarar Guðrún spurð hvort ljósmæður skynji áhyggjur og kvíða hjá barnshafandi konum vegna stöðu mála.

„Maður vill auðvitað ekki hræða konur og þetta er auðvitað slæmt fyrir verðandi foreldra og konur sem eru á meðgöngu sérstaklega, útaf þessu hormónaflæði sem er. Þetta ýtir undir kvíða, óöryggi og streitu, sem er slæmt. Við viljum ekki tala þannig að við hræðum konur, en svona er staðan,“ segir hún.

Það skapar mikið óöryggi fyrir konur að vita ekki að hverju er gengið þegar um er að ræða fæðingu samkvæmt Guðrúnu og vísar hún til neyðaráætlun Landspítalans vegna ástandsins sem felur meðal annars í sér að konur gætu verið sendar á Selfoss og til Keflavíkur, jafnvel með flugi til Akureyrar til þess að fæða.

Mikið álag og mikil ábyrgð

„Við erum búnar að mennta okkur. Við erum búnar að fara fjögur ár í hjúkrunarfræði, tvö ár í ljósmæðrafræði og sumar meira að segja búnar að bæta við sig einu ári í meistaranámi. Þannig að þetta er sex til sjö ára nám,“ segir Guðrún

Hún bendir á að ljósmæður hafa lagt mikið ásig til þess að vera í starfi sínu og að þær vilji vera í þessu starfi, en tekur jafnframt fram að álagið hefur orðið mikið á ljósmæðrum sem bætist ofan á þá ábyrgð sem fylgir starfinu.

„Ábyrgðin, við erum með líf í höndunum og líf móðurinnar barnsins og móðirin er stundum með tvö innanborða og stundum þrjú. Þannig að við erum með mikla ábyrgð líka og maður spyr sig hversu lengi er ég tilbúin til þess að slíta mig út og gera mig útsetta fyrir veikindum og öðru slíku fyrir lítið sem ekki neitt. Maður gerir þetta ekki fyrir ánægjuna eina.“

Guðrún segist ekki sátt við Bjarna Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. „Bjarni hefur ekki svarað kalli, hann hefur ekki viljað hitta ljósmæður og aldrei látið sjá sig. Hann hefur ekki hitt forstjóra Landspítalans, ekki komið á neina fundi og hann svarar okkur ekki í einu né neinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert