Birti myndband af árekstri á Hellisheiði

Úr myndbandinu sem Samgöngustofa birtir á Facebook-síðu sinni af árekstri …
Úr myndbandinu sem Samgöngustofa birtir á Facebook-síðu sinni af árekstri í Svínahrauni. Skjáskot/Facebook

Samgöngustofa hefur birt myndband af árekstri sem varð fyrir stuttu á Hellisheiði. Ljóst er að ef ekki hefði verið búið að setja vegrið á milli akstursstefna hefðu afleiðingarnar orðið alvarlegar.

Í frétt frá Samgöngustofu segir að fyrstu fjóra mánuði þessa árs hafi orðið mikil aukning á framanákeyrslum á vegum landsins í samanburði við sama tímabil síðustu tíu ára. Þetta kemur fram í slysaskráningu Samgöngustofu en hér að neðan má sjá tölur um þetta. Í skýrslunni kemur einnig fram að í fyrra létust þrír af völdum framanákeyrslna en fimm það sem af er þessu ári.  

Tafla/Samgöngustofa

Þótt Íslendingar séu meirihluti slasaðra og látinna vegna framanákeyrslna þá hefur fjöldi slasaðra og látinna erlendra ferðamanna rúmlega tvöfaldast frá því í fyrra og aukist um 138% á meðan fjöldi Íslendinga jókst um 49%. Heildarfjöldi slasaðra og látinna í framanákeyrslum fyrstu fjóra mánuði ársins 2018 hækkar um 64% frá sama tímabili ársins 2017. 

Facebook-færslu Samgöngustofu, þar sem sjá má myndbandið af árekstrinum á Hellisheiði má sjá hér að neðan.  „Þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar til aðskilnaðar akstursstefna og uppsetning vegriða á Íslandi á undanförnum árum, hefur líkt og þetta myndband og fjöldi annarra tilfella vitnar um, bjargað fjölda mannslífa og komið í veg fyrir mjög alvarleg slys,“ segir í frétt Samgöngustofu. „Enn er þó eftir að vinna slíkar fyrirbyggjandi aðgerðir mjög víða á vegakerfinu en ljóst er að því fjármagni sem varið er til slíkra verkefna er vel varið.“

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að slysið hefði átt sér stað í Svínahrauni, en Samgöngustofa hefur sent frá sér leiðréttingu þar sem hið rétta kemur fram um að slysið hafi verið á Hellisheiði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert