Útilokar ekki að kísilverið verði ræst

Fulltrúi meirihlutans í Reykjanesbæ segist ekki geta útilokað að kísilverið …
Fulltrúi meirihlutans í Reykjanesbæ segist ekki geta útilokað að kísilverið hefji starfsemi að nýju. mbl.is/RAX

Reykjanesbær mun erfiðlega geta komið í veg fyrir að kísilverið í Helguvík verði ræst að nýju fáist umhverfismat og samþykki Skipulagsstofnunar, segir Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, í samtali við mbl.is. Hann segir yfirlýsingu meirihlutans um að hafna mengandi stóriðju í Helguvík nái aðeins til „frekari mengandi iðnaðar“.

Fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins í dag að til standi að selja kísilverið og unnið sé að því að koma starfsemi þess af stað á ný sem yrði í fyrsta lagi haustið 2020. Tillaga að matsáætlun greinir meðal annars frá fyrirhuguðum úrbótum á starfsemi verksmiðjunnar.

Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.
Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ. Ljósmynd/Samfylkingin

Í málefnasamningi Samfylkingar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar, sem er til grundvallar meirihlutasamstarfs í bæjarstjórn Reykjanesbæjar segir að „framboðin þrjú hafna mengandi stóriðju í Helguvík og mun nýtt Framtíðarráð fjalla um starfsemina og leita lausna svo tryggja megi að atvinnuuppbygging í Reykjanesbæ sé ávallt í sátt við íbúa.“

Spurður hvort þetta merki að meirihlutinn leggist gegn því að núverandi mannvirki verði nýtt undir stóriðju svarar Friðjón „nei. Við erum búin að samþykkja að það komi ekki frekari mengandi iðnaður. Við getum ekki tekið tilbaka leyfi sem þegar eru til staðar, en við erum að breyta um kúrs í þessu. Þarna verði hafsækinn iðnaður og ekki mengandi stóriðja.“

Engin gögn liggja fyrir

Friðjón segir þó erfitt að tjá sig í smáatriðum um málið þar sem engin gögn hafi verið lögð fyrir bæjarstjórn enn þá. Hann segir það ekki gerast fyrr en hafin er vinna við gerð umhverfismats.

Í tilkynningu frá Stakkbergi ehf., dótturfélagi Arion og eiganda kísilversins, segir að „fyrsta skref í ferli mats á umhverfisáhrifum er að framkvæmdaraðili vinnur tillögu að matsáætlun. Í áætluninni er fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdasvæði lýst. Greint er frá helstu áhrifaþáttum framkvæmdarinnar og á hvaða umhverfisþætti verður lögð áhersla í mati á umhverfisáhrifum.“

Oddvitinn segir verkefnið stórt og flókið. „Við munum standa íbúamegin, við erum með íbúunum í þessu og höfum gert Arion banka grein fyrir því, að við erum ekki talsmenn þeirra að nokkru leyti,“ bætir hann við.

„Starfsleyfið var tekið af þeim og nú er þetta háð nýju umhverfismati og samþykki Skipulagsstofnunar, og þeir eru ekki búnir að leggja neitt fram þar enn þá. Þeir eru bara að leggja fram matsáætlun um hvað þeir ætla að gera, en það liggur ekki fyrir neitt plan,“ segir Friðjón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert