Ljósmæður mæta með tilboð á morgun

Fundað verður í deilu ljósmæðra og ríkisins á morgun.
Fundað verður í deilu ljósmæðra og ríkisins á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samninganefnd ljósmæðra mætir með tilboð inn í kjaraviðræður við samninganefnd ríkisins þegar fundað verður í deilunni hjá ríkissáttasemjara á morgun. Síðasti fundur í deilunni var á fimmtudag í síðustu viku og hefur deilan magnast síðan þá; tólf uppsagnir ljósmæðra tóku gildi á laugardag og fjármálaráðuneytið og ljósmæður hafa deilt um tölulegar staðreyndir í deilunni í fjölmiðlum.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segir þrátt fyrir allt að ljósmæður mæti bjartsýnar á fund morgundagsins vopnaðar tilboði sem þær ætla að leggja fyrir samninganefnd ríkisins. Tilboðið felur í sér einhverjar breytingar frá samningnum sem ljósmæður felldu í síðasta mánuði.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra. Ljósmynd/Katrín Sif

„Ég er bjartsýn, ég trúi því ekki að þetta geti gengið svona lengur,“ segir Katrín spurð hvort hún telji líkur á að samningar náist á fundinum á morgun.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að ljósmæðrum hefði verið boðin 12 prósenta hækkun í samningnum sem var felldur í síðasta mánuði. Katrín segir það ekki rétt.

„Þar var boðin 4,21 prósents miðlæg hækkun og talað um töflubreytingu sem hefði fært okkur nokkur prósent til viðbótar,“ segir hún.

Með töflubreytingu var hækkunin að meðaltali 6,9 prósent til vaktavinnukvenna og 8 prósent til dagvinnukvenna að sögn Katrínar. Því til viðbótar ætlaði velferðarráðuneytið að koma með 60 milljónir til viðbótar við samningana sem átti að deila niður á 285 ljósmæður landsins.

Samninganefnd ljósmæðra.
Samninganefnd ljósmæðra. mbl.is/Árni Sæberg

Meðalaldurinn hár og því skiptir máli að uppsagnir séu ekki varanlegar

Katrín telur ólíklegt að allar tólf ljósmæðurnar sem létu af störfum um mánaðamótin snúi til baka þrátt fyrir að semjist á morgun. „Aldrei allar, ég held ég geti fullyrt það. Þær eru margar komnar í önnur störf og margar þeirra verið á nippinu út af álagi og lélegum kjörum,“ segir Katrín. „En ég vona að ég hafi rétt fyrir mér þegar ég segi að stór hluti snúi til baka ef samningar verða ásættanlegir.“

Hún segir það skipta miklu máli að ljósmæðurnar sem eru hættar og þær 18 sem hafa sagt upp störfum til viðbótar haldist í starfi enda sé meðalaldur innan stéttarinnar hár. „Helmingur félagsmanna er kominn yfir fimmtugt og fjórðungur yfir sextugt,“ segir Katrín.

Hún segir tíu útskrifast úr ljósmóðurfræðum að meðaltali á ári en aðeins fjórar þeirra skili sér á Landspítala. „Þær fara annað, þar sem launin eru hærri. Ábyrgðin minni og vinnutími betri,“ segir Katrín. Eru það ýmist aðrar heilbrigðisstofnanir en Landspítali eða t.d. flugfreyjustörf, segir hún.

Fólk setjist niður með lausnamiðað hugarfar

Katrín segir að þrátt fyrir að ljósmæður og fjármálaráðuneytið hafi deilt eitthvað í fjölmiðlum frá síðasta fundi sé andrúmsloftið svipað og það hefur verið í viðræðunum til þessa. „Þetta hefur aðeins verið að endurspeglast út á við hvernig samskiptin og viðhorfið hefur verið á samninganefndarfundum til þessa. Viðhorfið hefur ekkert breyst. Við förum inn á þennan fund á morgun og reynum að vera jafnbjartsýnar og við höfum verið þegar við höfum gengið inn á fundi hingað til,“ segir Katrín.

„Með von um að fólk geti sest niður með lausnamiðað hugarfar sem geti leitt til þess að hægt verði að skrifa undir samning.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert