„Hefðum viljað borða vöfflurnar í dag“

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Hari

„Samninganefndin vill taka sér tíma til að setja saman nýtt tilboð til okkar,“ segir Katrín Sif Sig­ur­geirs­dótt­ir, formaður samn­inga­nefnd­ar ljós­mæðra, í samtali við mbl.is. Samningafundi í kjaradeilu ljósmæðra við ríkið lauk klukkan fimm og hefur verið boðað til næsta fundar eftir sex daga.

Ljósmæður lögðu fram tilboð fyrir samninganefndina í morgun en Katrín sagði að samninganefndin hefði svarað því til að ekki væri hægt að ganga að þeim kröfum eins og þær væru settar fram.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra. mbl.is/Hari

„Mér skilst að þeir ætli að smíða tilboð í öðru formi og leggja fyrir okkur. Þeir segjast þurfa að taka sér tíma til að setja það saman,“ segir Katrín. Hún bendir á ýmsar ástæður fyrir því að svo langt sé í næsta samningafund og segir að ljósmæður hefðu viljað funda fyrr.

Bjartsýnni núna en í morgun

„Þeir skýra það á því að það eru sumarfrí í gangi og það þurfi að kalla inn einhverja aðila sem koma að þessu tilboði. Auðvitað hefðum við viljað borða vöfflurnar í dag og fara að vinna í uppbyggingu á þeim skaða sem hefur orðið á meðan deilan hefur staðið yfir,“ segir Katrín og bætir við að hún fagni því að samtal sé í gangi og segist bjartsýnni núna en þegar hún kom til fundarins í morgun.

Fjöldi fólks mætti til að sýna ljósmæðrum samstöðu við upphaf …
Fjöldi fólks mætti til að sýna ljósmæðrum samstöðu við upphaf fundar í morgun. mbl.is/Hari

Uppsagnir 12 ljósmæðra á Landspítalanum tóku gildi um síðustu helgi og þá samþykktu ljósmæður yfirvinnubann sem tekur gildi um miðjan mánuðinn. „Ég hef verulegar áhyggjur og helst vildi maður sjá að það væri hægt að vinna þetta hraðar og betur. Það hlýtur að vera allra hagur. Ég krosslegg fingur og vona að það verði boðað fyrr til fundar. Við mætum hingað á miðvikudag og fyrr ef okkur verður boðið.“

„Erum ekki að fara fram með frekju“

Ljósmæður finna fyrir miklum stuðningi í baráttu sinni og segir Katrín að hann hafi aðstoðað þær í deilunni. „Við vitum að þetta er réttlætismál og vitum að við erum ekki að fara fram með frekju og yfirgangi og ég held að almenningur sé sammála okkur um það. Við höfum lagt fram gögn sem rökstyðja okkar mál,“ segir Katrín og bætir við að reiði ljósmæðra vegna framkomu hins opinbera hafi magnast við hverja hindrun á löngu og ströngu samningaferli:

Það gerir það að verkum að við erum svo hræddar um að sá hluti sem hefur sagt upp störfum muni ekki skila sér til baka nema að hluta. Þetta er dýrkeypt barátta fyrir okkur og við myndum ekki halda henni úti nema af því að þetta er svo mikið réttlætismál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert