Heil áhöfn fékk iðrakveisu

Sami sýkill ræktaðist úr bernaise-sósu, sem búin var til úr …
Sami sýkill ræktaðist úr bernaise-sósu, sem búin var til úr aðkeyptum eggjum og borin fram með kjöti. mbl.is

Allir í áhöfn íslensks farskips, ellefu talsins, sýktust af völdum iðrakveisu eftir að skipið lét úr höfn í Hollandi í maí  og hélt til Íslands. Veiktust skipverjarnir einn af öðrum þar til skipið kom til landsins. Um þetta er fjallað í nýjasta hefti Farsóttafrétta embættis landlæknis.

Þar kemur fram að tveir þeirra voru lagðir inn á sjúkrahús. Sýkillinn Salmonella typhimurium ræktaðist frá sjö af ellefu skipverjum. Unnið var að rannsókn málsins í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Matvælastofnun, Matís, sýklafræðideild Landspítala og forstöðumenn skipafélagsins.

Ljóst þótti að um matarsýkingu hefði verið að ræða um borð í skipinu en flestir í áhöfninni höfðu ekki farið frá borði í Hollandi. Matarföng höfðu hins vegar verið keypt þar í landi. Sami sýkill ræktaðist úr bernaise-sósu, sem búin var til úr aðkeyptum eggjum og borin fram með kjöti.

Sýkillinn ræktaðist einnig úr reyktu svínakjöti sem var á boðstólnum en talið er að kjötið hafi orðið fyrir krossmengun frá sósunni. Ekki tókst að greina sýkilinn úr eggjum sem voru um borð í skipinu.

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins og Matvælastofnun Evrópusambandsins var gert viðvart. Nánari rannsókn á ættgreiningu salmonellunnar var gerð í samvinnu við hollensk heilbrigðisyfirvöld. Niðurstaðan var að þessi stofn tengdist ekki sambærilegum S. typhimurium-stofnum sem hafa verið að greinast í Evrópu um þessar mundir. Þá hefur þessi stofn ekki greinst hér innanlands. Uppruni smitsins er því á huldu, segir í frétt Farsóttafrétta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert