Mynstur í komu hvítabjarna

Ísbjörninn á Hornströndum 2. maí 2011.
Ísbjörninn á Hornströndum 2. maí 2011. Mynd/Landhelgisgæslan

„Áður fyrr þá komu hvítabirnir langoftast ef það var mjög mikill hafís en núna virðumst við vera komin inn í tímabil þegar birnir koma helst þegar hafísinn hverfur mjög hratt undan þeim,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir, landfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, í samtali við  mbl.is.

Tilkynnt var um hvítabjörn á Melrakkasléttu í gærkvöldi og var þyrla Landhelgisgæslunnar send norður til að leita af birninum. Hann fannst ekki í gærkvöldi, en áfram var leitað í dag. Leitinni var þó hætt klukkan 16:30 og hvorki hefur sést tangur né tetur af birninum.

Ingibjörg segir að í júní hafi skapast skilyrði fyrir komu bjarna til landsins þegar hafís var farinn að teygja sig til móts við Skagafjörð.

„Svo komu norðaustur áttir þannig að ísinn brotnaði mjög hratt upp og það er eins og birnirnir séu að lenda í vandræðum eftir svona aðstæður. Þá hafa þeir kannski náð full langt austur og svo allt í einu hverfur ísinn undan þeim og þá er minna mál fyrir þá að koma sér í land heldur en að fara til baka,“ segir Ingibjörg.

Hún segir mynstur vera farið að myndast í komu hvítabjarna til landsins.

„Ef það er björn þarna [á Melrakkasléttu] þá er þetta ansi keimlíkt mynstur og þetta var bæði 2008 og 2010. Við höfum séð þetta í nokkur skipti núna frá 2008 þegar það komu þrír birnir og svo í nokkur skipti eftir það,“ segir Ingibjörg.

Hún bætir því við að hvítabirnir geti synt langt og því þurfi ekki einu sinni að vera ísjakar nálægt landi til þess að þeir nái alla leið til Íslands frá Grænlandi.

„Þetta gerðist líka þegar það kom björn í Þistilfjörð þó að það sæjust engir ísjakar þar nálægt. Þeir geta synt mjög langt. Kannski fá þeir far hluta af ferðinni með einhverjum smáum jaka sem að sést ekki en það þarf ekki einu sinni að vera," segir hún að lokum.

Myndin er SENTINEL-1 ratsjármynd frá ESA Copernicus, tekin 10.6.2018, þegar …
Myndin er SENTINEL-1 ratsjármynd frá ESA Copernicus, tekin 10.6.2018, þegar hafísinn við Ísland komst einna lengst í austur þetta sumarið. Eftir það brotnaði hann upp og bráðnaði. Örfáir borgarísjakar hafa verið á þessum slóðum síðan, t.d. utan við Skaga. Staðan núna er sú að það eru borgarísjakar á Grænlandssundi, en langt er í eiginlegan hafís. Það þarf að fara langleiðina til Grænlands til að finna hafíshrafl. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert