Engar tilkynningar um bjarndýr í nótt

Kort

Engar tilkynningar hafa borist til lögreglunnar á Norðurlandi eystra í nótt um ísbjörn á Melrakkasléttu, að sögn varðstjóra. Flogið var yfir svæðið í gærkvöldi og tilkynning send á þá sem voru með farsíma á svæðinu eftir að tilkynning barst um að mögulega hefði sést til hvítabjarnar nyrst á Melrakkasléttu eða suður af Hraunhafnarvatni síðdegis í gær. 

Þegar mbl.is ræddi við varðstjóra á sjötta tímanum í morgun var allt með kyrrum kjörum og engar tilkynningar borist. Staðan verður metin að nýju um átta, að sögn varðstjóra en ástæða þykir til að taka tilkynninguna sem barst til lögreglu í gær alvarlega. Lögregla biður alla þá sem telja sig verða vara við hvítabirni að hafa samband við 112.

Þegar tilkynningin barst lögreglu var leitað til Landhelgisgæslunnar með það að fá þyrlu til að fljúga yfir svæðið og fóru menn frá Akureyri með í það flug. Þá voru lögreglumenn sendir til vera á svæðinu til aðstoðar ef á þyrfti að halda.

Tilkynning var send með SMS á alla þá aðila sem voru með farsíma á svæðinu um atvikið og fólk beðið að láta vita ef það yrði vart við dýrið. Þá setti lögreglan sig í samband við fulltrúa Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar vegna þessa.

Klukkan 00:30 sneri þyrlan aftur til baka til Akureyrar, en ekkert hafði þá sést til dýrsins. 

Ólafur Hjörtur Ólafsson lögreglumaður á vettvangi á Melrakkasléttu í gærkvöld, …
Ólafur Hjörtur Ólafsson lögreglumaður á vettvangi á Melrakkasléttu í gærkvöld, með sjónauka á lofti í leit að bjarndýri. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert