Mælast gegn kaupum á gjafabréfum

Samkeppniseftirlitið gerir athugasemdir við gjafabréf flugfélaganna tveggja.
Samkeppniseftirlitið gerir athugasemdir við gjafabréf flugfélaganna tveggja. Samsett mynd

Neytendasamtökin vara við því að festa kaup á gjafabréfum flugfélagana þar sem gildistími bréfanna sé of skammur. Jafnframt telja samtökin að fyrirtæki sem ekki treysta sér til þess að hafa sanngjarnan gildistíma á gjafabréfum ættu að sleppa því að selja slík bréf, að því er fram kemur í tilkynningu til fjölmiðla.

Samtökin telja að eðlilegur gildistími gjafabréfa sé fjögur ár, sem er almennur fyrningarfrestur á kröfum. Þá segir í tilkynningunni að „þau gjafabréf sem langmest er kvartað yfir eru gjafabréf flugfélaga en allt of algengt er að gildistími þeirra renni út áður en eigandinn nær að nýta sér inneignina. Gildistími fluggjafabréfanna er afar stuttur.“

Máli sínu til stuðnings benda Neytendasamtökin á að gildistími gjafabréfa Icelandair er  tvö ár, en aðeins eitt ár hjá WOW air og þarf eigandi bréfsins að hafa lokið ferð sinni innan þess tíma.

Ósanngjarnir skilmálar

Samkvæmt kvörtunum sem samtökunum berast vegna WOW air virðist vera lítill vilji vera af hálfu fyrirtækisins að framlengja þennan frest. Neytendasamtökin hvetja WOW air til þess að leysa úr þeim málum sem út af standa vegna gjafabréfakaupa „enda skilmálar gjafabréfanna beinlínis ósanngjarnir“.

„Fyrirtæki sem selja gjafabréf hafa fengið fjármagn inn í reksturinn og í raun mætti í þessu sambandi tala um vaxtalaust lán. Það er því í hæsta máta óeðlilegt að inneignin fyrnist án þess að neytandinn hafi nokkuð um það að segja,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert