Afskaplega ánægjulegt en mikil ábyrgð

Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkisráðherra, var viðstaddur atkvæðagreiðsluna í New York …
Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkisráðherra, var viðstaddur atkvæðagreiðsluna í New York í dag. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir í samtali við mbl.is að hann sé ánægður og stoltur yfir því að litið er til Íslendinga þegar kemur að mannréttindamálum, en segist jafnframt meðvitaður um þá ábyrgð sem því fylgir. Ísland mun nú taka sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í kjölfar kosninga þess efnis í dag.

Ísland hlaut 172 atkvæði af 173, greiddum atkvæðum, á fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

Mikil ábyrgð fylgir því að sitja í mannréttindaráðinu að sögn ráðherrans. „Það er mikilvægt að við Íslendingar stöndum saman í að axla hana,“ segir hann.  „Þetta var nú afskaplega ánægjulegt að finna þennan breiða stuðning sem hvetur okkur til dáða.“ Samkvæmt Guðlaugi var mikil samstaða vesturlanda um framboðið samhliða þessum mikla stuðningi sem Ísland fékk í kosningunni.

„Þetta kemur til vegna þess að við höfum verið að vanda okkur í mannréttindamálum bæði heima og á erlendum vettvangi. Þá höfum við haft forystu um ýmis mál sem fastanefndin hefur fylgt eftir svo sem stöðu mannréttinda á Filippseyjum,“ segir hann og bætir við að íslensk stjórnvöld hafi einnig lagt sérstaka áherslu á jafnréttismál og stöðu hinsegin fólks.

Vill kerfisbreytingu

Guðlaugur segir að Ísland hafi meðal annars vakið athygli á þörf á umbótum er varðar starfsemi mannréttindaráðsins og talað fyrir kerfisbreytingum sem meðal annars miða af því að auka ábyrgð þeirra ríkja sem eiga sæti í ráðinu.

„Ég hef kallað sérstaklega eftir því að þær þjóðir sem sitja í mannréttindaráðinu séu til fyrirmyndar í mannréttindum. Þá hef ég tiltekið sérstaklega Sádi-Arabíu, Filippseyjar, Venesúela, svo einhver lönd séu nefnd,“ segir hann.

„Það er bara ein leið til þess að komast að því og það gerist ekkert af sjálfu sér,“ svarar Guðlaugur aðspurður um líkur þess að erindi Íslands nái fram að ganga í ráðinu. „Framfarir á sviði mannréttinda hafa aldrei átt sér stað án baráttu. Það er skylda okkar sem njóta sjálfsagðra réttinda að tala fyrir þeim,“ bætir hann við.

Ræddi við Haley

Utanríkisráðherra segir bandarísk yfirvöld ekki hafa leitað til Íslendinga sérstaklega í ljósi þess að Ísland mun nú taka sæti sem varð laust eftir að Bandaríkin sögðu sig úr mannréttindaráðinu. Hann segist þó hafa átt mjög gott samtal um stöðu mála við Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna.

Samkvæmt Guðlaugi hefur verið skýr samstaða meðal vesturlanda um framboð Íslands og telur hann að áfram verði gott samstarf við Bandaríkin sem og annarra vesturlanda á sviði mannréttinda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert