„Við munum fara vel ofan í þetta“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Við munum fara vel ofan í þetta og endurmeta okkar ferli, það er engin spurning,“ sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, í Morgunblaðinu í dag um niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála um ráðningarferli borgarlögmanns.

Nefndin telur að Ástráður Haraldsson sé hæfari til að gegna starfi borgarlögmanns en Ebba Schram, sem skipuð var í embættið í ágúst á síðasta ári.

Ástráður og Ebba, sem einnig er hæstaréttarlögmaður, sóttu bæði um starfið og taldi Ástráður brotið á sér vegna kynferðis síns þegar Ebba var ráðin. Nú hefur kærunefnd jafnréttismála komist að sömu niðurstöðu og segir í úrskurði sínum að brotið hafi verið á lögum um jafna stöðu karla og kvenna við ráðninguna.

 „Mér finnst það alltaf vera lærdómur þegar svona mál koma upp,“ segir Þórdís Lóa. „Ég veit líka að borgin hefur lagt metnað sinn í ráðningarferlin og hefur aldrei lent í svona áður, svo þetta er veruleg áminning til okkar að fara ofan í málin.“

Í samtali við Morgunblaðið lagði Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, áherslu á að hún hefði setið hjá þegar ráðningin hefði komið fyrir borgarráðið. „Ég sagði að við þyrftum að fara í gagngera endurskoðun á þessu ráðningarferli. Ég held að þessi úrskurður sé staðfesting á því.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert