Telja ákvæði um salerni komið til ára sinna

Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar og formaður mannréttinda- og lýðræðisráðs …
Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar og formaður mannréttinda- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formaður mannréttinda- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar, Dóra Björt Guðjónsdóttir, segir reglugerð um húsnæði vinnustaða komna til ára sinna en nýsamþykkt tillaga ráðsins um ókyngreind salerni í húsnæði borgarinnar, m.a. í ráðhúsinu og öðrum skrifstofum borgarinnar, brýtur í bága við 22. gr. reglugerðarinnar. Ráðið mun óska eftir undanþágu frá ákvæðinu. 

Í umræddu ákvæði reglugerðarinnar seg­ir að á vinnu­stöðum þar sem starfa fleiri en fimm karl­ar og fimm kon­ur skuli sal­erni og snyrt­ing fyr­ir hvort kyn aðgreind. Dóra Björt segir að ráðið ætli að óska eftir undanþágu frá ákvæðinu eða breytingu á reglugerðinni með erindi til stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og velferðarráðherra. Hún telur jafnframt að hugsanlega sé kominn tími á að endurskoða reglugerðina. 

„Það er ekki þannig að við getum farið fram á breytingu á reglugerðinni en við munum a.m.k. senda þetta erindi. [...] Við munum vinna þetta áfram í samstarfi við Vinnueftirlitið. Samfélagið hefur breyst og í dag skilgreina margir sig ekki eftir hinu hefðbundna kynjakerfi. Reglurnar eru mannanna verk og tala í takt við þann tíðaranda sem er á þeim tíma sem þær eru settar og verða að taka mið af þróun samfélagsins,“ segir Dóra Björt. 

Ráðið hafi ekki hlaupið á sig

Spurð hvort ráðið hafi hugsanlega hlaupið á sig með því að samþykkja tillögu sem fer í bága við reglugerðina telur Dóra svo ekki vera. „Þessi tillaga lýsir bara skýrum pólitískum vilja, til þess að auka aðgengi allra að þjónustu borgarinnar. Þetta er réttlætismál sem snýst um lýðræði, mannréttindi og aðgengi fyrir alla. Ákveðnir hópar í samfélaginu eins og transfólk og intersexfólk eru orðnir sýnilegri og samfélagið þarf að aðlagast því. [...] Okkar pólitíska markmið er að einfalda kerfið og aðlaga það að þörfum notenda frekar en að hafa þjónustuna á forsendum kerfisins.“ 

Dóra bendir á að tillagan feli jafnframt í sér að borgin geri úttektir á stöðum þar sem þjónusta borgarinnar er veitt. Úttektirnar verði í þeim tilgangi að leggja fram tillögur að úrbótum til þess að auka aðgengi allra kynja að þjónustu borgarinnar. Eins hafi ráðið samþykkt bókun samhliða tillögunni um að ávallt verði hugað að þessum málefnum þegar framkvæmdir fara fram á vegum borgarinnar. 

„Það sem þessi úttekt mun taka mið af eru þessar breytingar sem þarf mögulega að gera í húsnæðum borgarinnar, á sundlaugum, skólum íþróttamannvirkjum o.s.frv., eða að fólk sé alla vega meðvitað um þessa stöðu þegar farið er í framkvæmdir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert