Vilja fagna fullveldinu með nýjum frídegi

mbl.is/​Hari

Undirbúningur hátíðarfundar Alþingis á Þingvöllum á morgun, vegna 100 ára fullveldis landsins, var efni þingfundar dagsins. Mikil samstaða var á fundinum, þar sem fyrsta umræða fór fram um sérstaka hátíðartillögu um byggingu nýs hafrannsóknarskips og stofnun barnamenningarsjóðs, sem ætlað er að samþykkja á hátíðarfundinum á morgun. á morgun.

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, ræddi harðindi frostaveturins 1918 í ræðu sinni og lýsti þakklæti sínu til þeirra kynslóða sem hafa byggt grunninn að fullvalda Íslandi.

„Mest er um vert að við minnumst þess hvaða gildi það hefur fyrir okkur að vera fullvalda ríki og hversu mikilvæg tímamót það voru 1918,“ sagði Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Nærri allir ræðumenn sögðust þakklátir fullveldinu. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, ræddi hins vegar ekki fullveldið og vakti frekar athygli á lýðræðiseflingu ungmenna og þjóðfélagsins alls.

Þá sagðist Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, fagna þeirri tillögu sem liggur fyrir þinginu, en kvað það vonbrigði að ekki hafi verið unnið markvisst að nýrri stjórnarskrá sem að hennar mati hefði verið kjörið að samþykkja á 100 ára afmælisári fullveldis Íslands.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, sagði flokkinn taka undir tillögurnar sem liggja fyrir Alþingi, en benti á að Miðflokkurinn teldi að fagna ætti afmælisárinu með því að gera 1. desember, fullveldisdaginn, að almennum frídegi. „Þjóð sem ekki ræður sjálf yfir landi sínu og auðlindum, hvernig það er nýtt og verndað, er ekki frjáls og fullvalda,“ sagði hann og varaði við þeim er telja réttlætanlegt að fela erlendum aðilum sífellt aukin völd yfir íslenskum málefnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert