Hvorki auðveld né skemmtileg ákvörðun

Helgi Hrafn Gunnarsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. mbl.is/Eggert

Helgi Hrafn Gunnarsson, varaformaður þingflokks Pírata, segir ákvörðun þingflokksins um að sniðganga hátíðarþingfund á Alþingi hvorki hafa verið auðvelda né skemmtilega. Það skýri hve seint hún er tekin.

Í tilkynningu frá Pírötum sem gefin var út í dag kemur fram að þingflokkurinn muni ekki mæta til hátíðarfundarins á Þingvöllum vegna þess að Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins og einn stofnenda þjóðernisflokksins Dansk Folkeparti, verður þar hátíðarræðumaður.

Pia hef­ur ít­rekað kom­ist í frétt­ir fyr­ir um­mæli sín um út­lend­inga m.a. lét hún þau orð falla í frétta­bréfi flokks­ins árið 2001 að múslim­ar væru fólk sem „lygi, svindlaði og blekkti“. Var hún kærð fyr­ir þessi um­mæli en sak­sókn­ari lét málið niður falla. 

Helgi komst fyrst að því hver yrði hátíðarræðumaður á fundi þingflokksformanna í gær. Hann segist þó ekki hafa kveikt strax á perunni. Forsætisnefnd Alþingis hefur haft hátíðarfundinn til umræðu. Í nefndinni situr Jón Þór Ólafsson fyrir hönd Pírata. Að sögn Helga kannaðist Jón ekki við að til stæði að Pia mætti til fundarins. Jón hafi því leitað í fundargerðum nefndarinnar en ekkert fundið.

Helgi segir nauðsynlegt að hafa í huga hver þessi einstaklingur er. „Að okkar mati stendur hún fyrir hinni hliðinni á þessari togstreitu sem nú er uppi í vestrænu samfélagi milli frjálslyndra lýðræðisgilda og þess sem kalla má „Trump-lega“ nálgun.“

Með því að bjóða henni til fundarins fái hennar sjónarmið einhvers konar viðurkenningu í augum stuðningsfólks hennar, segir Helgi en tekur fram að hann telji alls ekki það hafi verið ætlun þingsins.

Einhugur var innan þingflokksins um ákvörðunina. „Samviska okkar stóð þarna.“ 

mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert