Engar skýringar á auknum fíkniefnaakstri

Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna hefur aukist mikið milli …
Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna hefur aukist mikið milli ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur engar skýringar á auknum akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna, segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar í samtali við mbl.is. 163 slík brot voru skráð hjá lögreglunni í júní sem er metfjöldi í einum mánuði síðan samræmdar mælingar hófust árið 1999. Þetta kemur fram í afbrotatölfræði sem var birt á vef lögreglunnar fyrir helgi.

Mikil fjölgun hefur átt sér stað í þessum brotaflokki ef miðað er meðalfjölda síðustu sex og síðustu tólf mánuði. Þá hefur brotum fjölgað um 53% það sem af er ári samanborið við meðaltal á sama tímabili síðustu þrjú ár.

„Hver skýringin er nákvæmlega vitum við ekki en maður getur ímyndað sér margt en ég er ekki með neinar rannsóknir á borðinu mér til stuðnings í þeim efnum. Manni dettur í hug meira framboð á götunni og meiri neysla,“ segir Guðbrandur en tekur fram að talsvert sé um ítrekunarbrot þar sem lögreglumenn þekkja gerendur og stoppa þá jafnvel oftar en einu sinni í viku.

„Það er verið að taka sama fólkið aftur og aftur. Fólk sem er komið í mikla neyslu eða er í annarlegu ástandi er oft ekki með neina rökhugsun í þeim efnum,“ bætir hann við.

Eftirlit lögreglu hefur verið svipað milli mánaða og því ekki hægt að heimfæra aukninguna undir aukið eftirlit eða breyttar áherslur.

„Við gerum alltaf okkar besta í þessum efnum hverju sinni en mér vitanlega hefur svigrúm lögreglu til eftirlits ekkert aukist. Það ætti að vera svipað milli mánaða. Þess vegna skelfumst við þessa þróun,“ segir Guðbrandur.

"Okkur líst illa á þessa þróun og hvað veldur vitum við ekki nákvæmlega. En ég veit að þetta hefur verið málaflokkur sem að lögregla hefur reynt að sinna vel út af því hversu gríðarleg hætta er af slíkum ökumönnum í umferð," segir Guðbrandur að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert