Birta hjá PCC Bakka komin aftur í gang

Ofninn Birta var gangsettur að nýju í gær.
Ofninn Birta var gangsettur að nýju í gær. mbl.is/​Hari

„Þetta tók styttri tíma en við þorðum að vona,“ segir Hafsteinn Viktorsson, forstjóri kísilvers PCC Bakka á Húsavík. Ofninn Birta var gangsettur að nýju í gær eftir að eldur kom upp í ofnhúsinu 9. júlí. „Það gekk ágætlega en við erum svosem ennþá að prófa og sjá hvort það séu einhverjar skemmdir sem við vitum ekki um. Við verðum með ofninn í gjörgæslu næstu daga.“

Hafsteinn á von á því að framleiðsla ofnsins verði komin á fullt skrið eftir nokkra daga, svo lengi sem ekkert stórvægilegt komi upp. „Við erum búin að finna nokkra smáhluti sem þurfti að laga en ekkert stórvægilegt, þeir töfðu ekkert.“

Í samtali við mbl.is daginn eftir brunann sagði Hafsteinn hann mikið áfall, enda hafi ofninn verið farinn að framleiða hágæðavöru þegar eldurinn kom upp. Mestu máli skipti þó að starfsfólk væri óhult.

Bogi, ofn 2 í kísilverinu, er svo að segja tilbúinn til gangsetningar en Hafsteinn segir að ofn 1, Birta, verði að vera kominn í stöðugan rekstur áður en byrjað er á hinum. „Við bara bíðum. Ef eitthvað óvænt kæmi upp, eitthvað sem við vissum ekki fyrir og við yrðum að slökkva á ofni 1 aftur í lengri tíma, þá kveikjum við bara á ofni 2.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert