Bóndinn á Björgum

Jóna Björg Hlöðversdóttir bóndi á Björgum.
Jóna Björg Hlöðversdóttir bóndi á Björgum. Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson

Ungt fólk hefur mikinn áhuga á landbúnaði og margir vilja hefja búskap sem er vel. Hins vegar er staðan í þeim efnum þröng; það er helst með kynslóðaskiptum á jörðum sem möguleikar til slíks bjóðast. Í sauðfjárræktinni er afurðaverðið hins vegar svo lágt að dæmið gengur illa upp. Því þarf að hugsa áherslur í greininni alveg upp á nýtt,“ segir Jóna Björg Hlöðversdóttir á Björgum í Kinn í Þingeyjarsýslu, formaður Samtaka ungra bænda.

Stóð sjálfa mig að verki

Í febrúar á þessu ári tók Jóna Björg við forystu í samtökum ungbænda á Íslandi. Um 300 manns manns taka þátt í starfinu, mismikið eftir atvikum og svæðum en margir sýna stuðning í verki með því að greiða félagsgjöldin sem eru ekki há.

Björg eru nyrsti bær í Kinn, er undir Ógöngufjalli úti við Skjálfandaflóa. Umhverfið er stórbrotið og bæjarstæðið enda segir Jóna að þessar slóðir eigi í sér hvert bein. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2005 bjó hún í nokkur ár í Reykjavík og vann þar við ýmis störf.

Björg í Suður-Þingeyjarsýslu.
Björg í Suður-Þingeyjarsýslu. Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson

„Hins vegar stóð ég sjálfa mig að verki á þann hátt að ég fór oft strax eftir vinnu á föstudögum heim í Björg og fór ekki í bæinn aftur fyrr en aðfaranótt mánudags. Þegar ég setti þetta í samhengi gerði ég mér ljóst að framtíð mín væri auðvitað í sveitinni. Það rökrétta í stöðunni var því að fara í nám á Hvanneyri og eftir þriggja ára nám þar var ég komin með gráðu í búvísindum,“ segir Jóna.

Í félagsmálum af brennandi áhuga

Föðurfjölskylda Jónu hefur lengi búið á Björgum og um síðustu áramót var þar stofnað félagsbú. Að því standa Jóna Björg, Þóra Magnea systir hennar og Arnór Orri Hermannsson unnusti hennar – og svo foreldrar þeirra systra, þau Hlöðver Pétur Hlöðversson og Kornína Björg Óskarsdóttir. Þau búa með um 100 fjár og 40 kýr og hafa ýmis áform um að auka við sig í mjólkurframleiðslunni.

Jóna Björg Hlöðversdóttir.
Jóna Björg Hlöðversdóttir. Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson

„Nú veit maður ekki hvert svigrúm til aukningar er, en eigi að síður erum við áformamikil hér á bæ,“ segir Jóna Björg. Hún getur þeirrar miklu uppbyggingar og framkvæmda sem víða hafa verið hjá bændum síðustu ár og misseri, bú hafi verið stækkuð en aðrir jafnvel hætt. Umhverfið og viðmiðin í greininni séu að breytast. Slíkt kalli á umræðu í grasrótinni og nauðsynlegt sé að rödd ungra bænda heyrist þar.

„Sjálf fór ég í félagsmálin af því að ég brenn fyrir málefni landbúnaðarins, svo þar verði nauðsynlegar framfarir og umhverfið þannig að ungt fólk geti haslað sér völl í greininni. Félagsmálin eru vissulega tímafrek, illa launuð og starfið ekki alltaf þakklát. Þetta eru hins vegar mál sem ég brenn fyrir, tek því slaginn og finn að þetta skilar árangri. Mér finnst að í mörgu í landbúnaðarmálum hafi orðið algjör hugarfarsbreyting til hins betra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert