Kanna lögmæti lokunar við Brúará

Landeigendur hafa sett upp skilti skammt frá Brúará þar sem …
Landeigendur hafa sett upp skilti skammt frá Brúará þar sem þeir minna á að landið sé í einkaeign og að umferð um það í óleyfi sé bönnuð. mbl.is

Umhverfisstofnun ráðgerir að skoða aðstæður við Brúará í Bláskógarbyggð, en eigendur jarðar við ána hafa bannað alla umferð gangandi um landið og aðgengi að Hlauptungufossi þar með. Í umfjöllun mbl.is í gær kom fram að hópurinn teldi lokunina neyðarúrræði til að vernda viðkvæma náttúru fyrir ágangi ferðamanna.

Annar landeigandi hafði áður hafið framkvæmdir við uppbyggðan göngustíg meðfram ánni í samvinnu við sveitarfélagið Bláskógabyggð og taldi hann sig hafa samþykki hinna landeigendanna fyrir framkvæmdunum. Þeir telja sér heimilt að loka svæðinu og kannast ekki við að hafa gefið samþykki sitt fyrir göngustígnum. 

Allir eru landeigendurnir sammála um að mikil spjöll hafi orðið á landinu vegna fjölgunar ferðamanna sem gangi um svæðið.

Nýtt álitamál komið upp 

Í skriflegu svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn mbl.is er vísað til nýlegs máls um hindranir á umferð gangandi á sama svæði, en stofnunin geri þó ráð fyrir því að skoða aðstæður á svæðinu að nýju enda sé nú upp komið nýtt álitaefni.

Í eldra málinu hafði Umhverfisstofnun áform um að skora á landeiganda að Efri-Reykjum, að fjarlægja girðingu sem komið hefði verið fyrir á bakka Vallár ellegar setja göngustiga yfir hana, en girðingin þveraði ána.

Hlauptungufoss er einn af þremur fossum í Brúará.
Hlauptungufoss er einn af þremur fossum í Brúará. mbl.is/

Umhverfisstofnun féll að lokum frá áformum um áskorun. Í vettvangsferð starfsmanna stofnunarinnar að viðstöddum landeiganda gat hann sýnt fram á að yfir girðinguna væri þegar til staðar göngustigi, í um 200 metra fjarlægð og skilti við árbakkann sem vísuðu á hann.

Girt, merkt og óræktað svo hindra megi för

Á landi þess landeiganda sem hóf framkvæmdir við göngustíginn er sumarhúsabyggðin Reykjaskógur. Að hans sögn hefur göngufólk farið um sumarbústaðalandið í stórum stíl og troðið stíga þannig að drullusvað hafi myndast.

Um hina nýju hindrun við Brúará vísar Umhverfisstofnun í svari sínu til 18. gr. laga um náttúruvernd. Þar segir að mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar. Á eignarlandi í byggð sé eiganda eða rétthafa þó heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og göngustiga umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi.

„Svæðið þarf því að vera girt, merkt og óræktað til að þetta eigi við. Lóð undir frístundahús í notkun telst ræktað land í skilningi laga um náttúruvernd, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 3. tölul. 2. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008,“ segir í svari Umhverfisstofnunar.

mbl.is

Í svarinu er einnig tekið fram að í 29. gr. laganna sé heimild til að beiðast úrskurðar um ólögmætar hindranir. Fáum sinnum hafi þó verið látið reyna á ákvæðið frá því það var lögfest árið 2015.

Enn fremur að Umhverfisstofnun geti gripið til tiltekinna úrræða til að knýja á um að ólögmætar hindranir séu fjarlægðar og lagt fyrir eiganda eða rétthafa að setja stiga eða hlið á girðingu ef hún hindri för fólks sem heimil er samkvæmt á kvæðum laganna, t.d. um vatns-, ár- eða sjávarbakka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert