Druslur sameinast gegn ofbeldi

Druslugangan 2017.
Druslugangan 2017. mbl.is/Árni Sæberg

„Með því að vera drusla ertu að standa upp gegn ofbeldi og taka afstöðu með þolendum. Með því að mæta á Druslugönguna er maður bæði að láta það í ljós að maður standi með þolendum og að maður vilji sjá kerfislega breytingu í samfélaginu okkar. Við viljum fá betri úrræði og við stöndum saman í þeirri baráttu,“ segir Stella Briem, einn skipuleggjenda Druslugöngunnar.

Druslugangan á rætur sínar að rekja til Kanada og var haldin fyrst hérlendis árið 2011. Síðan þá hefur hún stækkað ört og fer á morgun fram í áttunda sinn. En hvað er Druslugangan?

Skilaboð Druslugöngunnar.
Skilaboð Druslugöngunnar. Ljósmynd/Rán Ísold Eysteinsd., Margrét A. Önnu Þorgeirsd., Ragnhildur Ásgeirsd.

„Druslugangan er hreyfing sem sýnir samstöðu með þolendum kynferðisofbeldis. Hún er einnig krafa okkar til stjórnvalda um bætt úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Við viljum búa til öruggt rými fyrir þolendur og við viljum að þolendur finni fyrir stuðning og samstöðu frá samfélaginu.“

Stella segir að uppruni göngunnar hafi verið svipaður á Íslandi og hann var í Kanada. Í báðum tilfellum létu lögregluþjónar niðrandi og afvegaleiðandi ummæli falla í umræðunni um kynferðisofbeldi sem olli því að baráttufólk fylkti sér saman og mótmælti því að sökinni væri komið yfir á þolandann en ekki gerandann.

Samkvæmt Stellu fannst skipuleggjendum göngunnar mikilvægt að skilboðin heyrist á …
Samkvæmt Stellu fannst skipuleggjendum göngunnar mikilvægt að skilboðin heyrist á fleiri tungumálum en íslensku og ensku. Ljósmynd/Rán Ísold Eysteinsd., Margrét A. Önnu Þorgeirsd., Ragnhildur Ásgeirsd.

Í fyrstu Druslugöngunni var því áherslan fyrst og fremst lögð á það að sama hve mikið maður neytir áfengis, hvernig maður klæðir sig eða hagar sér, kynferðislegt ofbeldi og áreitni er aldrei réttlætanlegt.

Stella segir að áherslurnar hafa breyst á Íslandi síðan þá. Þá var áherslan umfram öðru lögð á klæðaburð og slagorðið „still not asking for it,“ eða „ennþá ekki að biðja um það,“ kom fyrst fram.

„Síðan þá höfum við getað farið dýpra í vandamálið og samfélagsmeinið sem kynferðisofbeldi er,“ segir Stella og bætir við að baráttan hér á landi sé ekki jafn yfirborðskennd. 

„Við erum komin svolítið dýpra. Af hverju er þetta svona algengt og hvað getum við gert til þess að koma í veg fyrir þetta í staðinn fyrir að skoða hvernig hægt er að laga þetta þegar það er búið að gerast.“

Samkvæmt Stellu fannst skipuleggjendum göngunnar mikilvægt að skilboðin heyrist á …
Samkvæmt Stellu fannst skipuleggjendum göngunnar mikilvægt að skilboðin heyrist á fleiri tungumálum en íslensku og ensku. Ljósmynd/Rán Ísold Eysteinsd., Margrét A. Önnu Þorgeirsd., Ragnhildur Ásgeirsd.

Á hverju ári reynir Druslugangan að sögn Stellu að leggja áherslu á einhverja ákveðna hlið kynferðisofbeldis. Í fyrra var stafrænt kynferðisofbeldi til að mynda í brennidepli. „Við höfum verið að brjóta þetta svolítið niður á hverju ári.“

Í ár hafi Druslugangan hins vegar ákveðið að fara „back to basics“ eins og Stella orðar það og áherslan er því ekki lögð á einhvern einn sérstakan hóp umfram aðra. „Með þessu viljum við gera það ljóst að Druslugangan er fyrir alla og það geta allir fundið sinn stað innan hennar. Sama hvaða hópi í samfélaginu þeir tilheyra.“ 

Stella segir að Druslugangan hafi því ákveðið að hafa skilaboð göngunnar á fleiri tungumálum en íslensku og ensku og það hafi raunar verið löngu tímabært. Plaggöt og upplýsingar séu því á sjö mismunandi tungumálum í ár. 

Stella segist vona að þátttakan í göngunni verði góð og að Metoo hreyfingin á síðasta ári muni hvetja ný mengi til þess að láta sjá sig.

„Umræðan er orðin meiri og fólk er farið að líta öðruvísi á þetta. Það sést samt með Metoo, að eins og okkur finnst umræðan vera mikil þá er langur vegur framundan. Það eru ennþá hliðar kynferðisofbeldis sem við viljum ekki tala um því það er óþægilegt og við kunnum ekki að takast á við það. Við þurfum að tala saman sem samfélag og finna úrræði.“

Gangan hefst klukkan 14:00 á morgun og er gengið frá Hallgrímskirkju niður að Austurvelli. Þar er þétt dagskrá, bæði átakanleg og erfið en líka skemmtileg.

Þær Kiana Sif Limehouse og Helga Elín Herleifsdóttir sem kærðu báðar sama lögregluþjóninn fyrir kynferðislega misnotkun munu flytja ávarp. Þá verður hópur stúlkna sem vann verkefni í tengslum við Stígamót með gjörning og loks mun María Rut, einn forkálfa Druslugöngunnar hérlendis, ávarpa samkomuna.

Að því loknu mun hljómsveitin Sykur og tónlistarkonan GDRN stíga á stökk og plötusnúðurinn Dóra Júlía kemur einnig til með að þeyta skífum eitthvað fram eftir degi.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert