Hjólar umhverfis jörðina á veltipétri

Summerfield var glaður í bragði þegar Magnús hitti á hann …
Summerfield var glaður í bragði þegar Magnús hitti á hann í Varmahlíð í gær. Ljósmynd/Magnús Hafsteinn Hinriksson

Vegfarendur á Norðurlandi hafa margir rekið upp stór augu síðustu daga þar sem á ferðinni hefur verið maður á nokkuð einkennilegu hjóli. Hjólið, sem er undarlegt að því leyti að framhjólið er afar stórt en afturdekkið afar lítið, er forveri hins klassíska reiðhjóls og var fundið upp undir lok 19. aldar. 

Ökumaður hjólsins reyndist vera hinn breski Joff Summerfield sem hjólar um þessar mundir hringinn í kringum Ísland. Hann er ekki óreyndur þegar kemur að slíkum hjólreiðum, en hann hefur hjólað tvisvar sinnum umhverfis jörðina á veltipétrinum frá árinu 1999. Þetta er þó í fyrsta sinn sem hann heimsækir Ísland.

Íslandsförin er hluti af stærra ferðalagi Summerfield, en er hann var í Varmahlíð í gær hafði hann þegar hjólað 45.000 kílómetra leið í gegnum m.a. Bandaríkin, Kína og Indland. Á næsta ári ætlar hann að fara um Suður-Ameríku. 

Fær meiri athygli og kynnist fleira fólki

Summerfield smíðar hjólin sjálfur þar sem nær ógerlegt er að finna ökuhæfan veltipétur nú til dags. Í samtali við BBC í fyrra sagðist Summerfield hafa fengið hugmyndina að ferðalögunum eftir að hafa lesið um fyrsta manninn sem hjólaði hringinn í kringum jörðina, einmitt á veltipétri. Sá hét Thomas Stevens og hjólaði umhverfis jörðina á tveimur og hálfu ári á árabilinu 1884 til 1886. 

Summerfield sagði jafnframt í viðtalinu að kostirnir séu miklir við að ferðast um heiminn á hjóli. „Það er að fá að sjá heiminn með eigin augum og sjá nýja hluti.“ Þegar viðmælandi hans benti honum á að hann hefði sennilega getað séð það sama á venjulegu hjóli þá segir hann það hafa jákvæðar hliðar að ferðast um á veltipétri. „Á veltipétrinum fær maður athygli og þá kynnist maður fleira fólki. Fólk er opnara fyrir manni.“ 

Hafði hvað mestan áhuga á að koma til Íslands

Það er þó ekki alfarið tekið út með sældinni að leggja upp í slíka hættuför á veltipétri því Summerfield var rændur af óprúttnum aðilum í Ekvador í seinni heimsreisunni. Ræningjarnir höfðu á brott með sér síma, fartölvu og myndavél og ákvað Summerfield að flýta heimför vegna atviksins.

Hann hélt þó ótrauður áfram og sagði í samtali við BBC að hann hefði mestan áhuga á að koma til Íslands. Summerfield hefur því látið drauminn rætast og áætlar að förin í kringum Ísland taki hann um mánuð. Því geta vegfarendur haft augun opin í von um að sjá Summerfield á veltipétrinum.  

Magnús Hafsteinn Hinriksson, sem hitti Summerfield í Varmahlíð í gær, sagði í samtali við mbl.is að Summerfield hafi verið glaður í bragði og þá hafi hann verið sérstaklega ánægður með íslenska vatnið.

Hér má fylgjast með ævintýrum Summerfield.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert