Aðgengi að háskólanámi stærsta spurningin

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri. Ljósmynd/Háskólinn á Akureyri

„Þessi mikla aukning sem varð í ár, um 30%, kom okkur eiginlega svolítið á óvartSérstaklega í ljósi þess að við erum ekki enn farin að sjá mikil áhrif úr tvöföldum framhaldsskóla,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri. Hann segir þó að í nútímasamfélagi þurfi fólk að mennta sig í auknum mæli, breytingar séu mjög tíðar og því vanti skýrari stefnu um rekstur opinberra háskóla, þá sérstaklega hvað varðar aðgengi að háskólanámi.

Um­sókn­ir um nám við skólann fyr­ir skóla­árið 2018/​2019 slógu öll fyrri met og var end­an­leg tala um­sókna 2.083. Þá var 552 um­sækj­end­um synjað eða þeir höfðu ekki sent inn full­nægj­andi gögn með um­sókn­um sín­um.

„Við erum í fyrsta lagi mjög ánægð með svona mikinn áhuga á skólanum, þetta er búið að vera stigvaxandi síðustu árin, það var metár í fyrra líka með um 1.800 umsóknir. Fjögur af síðustu fimm árum höfum við slegið met miðað við fyrri ár,“ segir Eyjólfur og bætir við að hann búist við að aukningin verði einnig mikil meðal umsókna næstu ár. 

Við Háskólann á Akureyri stundar fjölbreyttur hópur nemenda af öllu landinu nám, þar af stór hluti nemenda í fjarnámi. Um 65% nemenda skólans eru utan höfuðborgarsvæðisins en um 35% nemenda eru á höfuðborgarsvæðinu. „Við náum til nemenda um allt land og það hefur verið aðalsmerki okkar að við veitum fólki aðgengi að háskólamenntun sama hvar það býr. [...] Við höfum sýnt fram á að það sé hægt að veita grunnháskólanám til allra sama hvar þeir búa á landinu,“ segir Eyjólfur. 

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri. mbl.is/Skapti

Stjórnvöld þurfi að gefa skýr skilaboð um eftirspurn

Í tilkynningu Háskólans á Akureyri um málið segir að stjórn­völd þurfi að gefa skýr skila­boð um það hvernig tak­ast eigi á við um­fram­­spurn eft­ir námi við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri.

Eyjólfur segir að í ljósi aukinnar spurnar eftir háskólanámi þurfi að ráðast í enn frekari mótun á stefnu opinberra háskóla.

Hann bendir á að í nútímasamfélagi þurfi fólk að mennta sig í auknum mæli og breytingar séu mjög tíðar. Spurnin eftir háskólanámi verði því líklega meiri heldur en áður hefði verið gert ráð fyrir af hinu opinbera. 

„Það er ekki til nein stefna í landinu um það hversu stór hluti af hverjum árgangi sem útskrifast úr framhaldsskóla á að hafa aðgengi að háskóla. Þarna vantar í raun og veru skýra stefnu bæði fyrir Háskólann á Akureyri hvað varðar þann fjölda sem ríkisvaldið ætlast til að við sinnum, og hins vegar fyrir landið í heild sinni. Hvernig ætlum við að vera með háskólamenntun skipulagða næstu 10-15 árin? Það er mjög stór spurning í tengslum við þessa fjórðu iðnbyltingu. Ég held að þetta sé samtal sem þurfi að eiga sér stað mjög hratt næsta vetur. Það sem kannski vantar er heildarstefnan,“ segir Eyjólfur. 

„Ætlum við að leyfa öllum að koma í háskóla sem vilja koma í háskóla, eða viljum við gera strangari aðgangskröfur eða takmarkanir? Það er í raun og veru stóra spurningin, hverjir eigi að hafa aðgengi að háskólanámi,“ segir Eyjólfur.

Eyjólfur segir að vinna sé þegar hafin í þessum efnum en telur að m.a. tilkoma styttingar framhaldsskólanna ásamt breytingum í samfélaginu þýði að það þurfi að ljúka þeirri vinnu fyrr en áætlað var. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert