Lægðin sem feykti hlýjunni á leiðinni

Búast má við úrkomu víða um landið á föstudag.
Búast má við úrkomu víða um landið á föstudag. mbl.is/Styrmir Kári

Svo virðist sem ekkert ætli að verða úr þrumuveðri eða hagléli sem talið var að gæti fylgt hlýjum vindum sem fara nú yfir landið. Samkvæmt sérfræðingi Veðurstofu Íslands er ekki útlit fyrir að skúraský séu að myndast og þrumur, eldingar og él muni því ólíklega hrjá landsmenn úr þessu.

Þá segir veðurfræðingur að þetta óvenjuhlýja loft sem hefur verið yfir landinu í dag og þá sérstaklega á suðvestur-horninu, sé því miður að flýta sér í vesturátt og verði líkast til farið fyrir dagslok.

Sökum hlýja loftsins mældist hitinn allt að 21 gráða á Siglufirði í nótt á milli klukkan tólf á miðnætti og fjögur í morgun. Samkvæmt veðurfræðingi er það ekki algengt að svo hlýtt loft feykist inn til byggða að næturlagi, en það er þó ekki óþekkt.

Því miður mun hitinn ekki vara lengi og strax síðdegis í dag mun líkast til rigna á höfuðborgarsvæðinu. Næstu daga verður veður svo svipað og það hefur verið að undanförnu. „Það verður fínt veður en ekkert frábært,“ segir veðurfræðingur.

Þá mun verslunarmannahelgin líkast til hefjast með rigningu um nánast allt land á föstudag. „Lægðin sem feykti þessu hlýja lofti mun koma yfir landið í vikunni.“

Það er því ekki seinna vænna fyrir íbúa höfuðborgasvæðisins og nágrennis að skella sér út og nýta skamma veru hlýindanna yfir landinu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert