Íslandsvinir drepnir í Tadsjikistan

Jay Austin og Lauran Geoghegan á ferðalagi sínu um heiminn.
Jay Austin og Lauran Geoghegan á ferðalagi sínu um heiminn. Af vefsíðunni Simply Cycling

Bandarískt par, sem ákvað að segja upp vinnunni og ferðast um heiminn eftir að hjóla um Ísland, lést í árás í Tadsjikistan á sunnudag. Jay Austin og Lauren Geoghegan voru bæði 29 ára gömul og frá Washington-borg. Þau höfðu verið á ferðalagi í rúmlega ár.

Á vefsíðu parsins segir að þau hafi farið í langa hjólreiðaferð um Ísland sumarið 2016 og ákveðið í kjölfarið að segja upp störfum sínum og hjóla um heiminn. Á síðunni lýstu þau velvild og gestrisni sem þeim var sýnd á ferðalögum sínum um Afríku, Evrópu og Asíu. Einnig lýstu þau atvikum þar sem reynt var að aka þau niður eða ýta þeim af hjólunum.

Í frétt National Public Radio, NPR, segir að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafi lýst yfir ábyrgð á árásinni á parið. Í henni voru tveir hjólreiðamenn til viðbótar drepnir. Í fréttinni segir að reynt hafi verið að aka hópinn niður á bíl en árásarmennirnir svo komið út úr bílnum og stungið hjólreiðamennina með hnífum. Í hópnum voru sjö hjólreiðamenn og lifðu þrír þeirra árásina af.

Parið lýsir því á vefsíðu sinni að það hafi flogið með reiðhjólin sín til Íslands sumarið 2016. Það hafi svo dvalið hér í einn „dásamlegan mánuð“ og hjólað um landið. „Við hjóluðum meira en þúsund kílómetra og tjölduðum í 26 nætur í röð, og eftir að ferðinni þar lauk vorum við sammála um að við vildum meira af þessu; meira af því að hjóla í friðsemd um stórkostlegt landslag, meira af því að sofa undir berum himni, meira af hljóðlátum sólarlögum og meira af vinalegu fólki og ævintýrum.“

Hér eru skrif parsins frá dvölinni á Íslandi þar sem birtur er fjöldi mynda úr ferðinni.

Tadsjikistan er lítið land í Mið-Asíu, norður af Afganistan. Það á m.a. landamæri að Kirgistan, Úsbekistan og Túrkmenistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert