Aðeins 5 þurrir dagar í borginni í júlí

Aðeins fimm þurrir dagar mældust í höfuðborginni í júlí.
Aðeins fimm þurrir dagar mældust í höfuðborginni í júlí. mbl.is/Hari

Júlímánuður var víða sá úrkomusamasti um áratugaskeið. Úrkoma í Reykjavík mældist 62,3 mm sem er 20 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Aðeins fimm þurrir dagar mældust í höfuðborginni í júlí. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands um tíðarfar í júlí.

Úrkoma mældist einnig mikil á Akureyri, eða 72,8 mm, sem er meira en tvöföld meðalúrkoma júlímánaðar. Aðeins þrisvar sinnum áður hefur mælst eins mikil úrkoma á Akureyri í júlímánuði, síðast árið 2014.

Sólarstundirnar voru hins vegar fleiri í höfuðstað Norðurlands, eða 122,5, samanborið við 89,9 í höfuðborginni, sem er 81 stund undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Ekki hefur verið eins sólarlítið í júlímánuði í Reykjavík síðan árið 1989.

Hitamet slegin á Súðavík og á Bjargtöngum

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að tíðarfarið á Austurlandi hefur verið hvað best, sérstaklega þegar kemur að hitatölum. Meðalhiti í júlí var hæstur á Hallormsstað, 12,1 stig, en lægstur á Brúarjökli, 3,6 stig.

Snögg hitabylgja gekk yfir landið 29. júlí og er hitabylgjan sú útbreiddasta á landinu þegar litið er til síðustu tíu ára eða frá því í hitabylgjunni í júlílok 2008. Hæstur mældist hitinn 24,7 stig á Patreksfirði sem er jafnframt hæsti hiti mánaðarins og hæsti hiti sem mælst hefur á árinu til þessa. Tvö ný árshitamet voru slegin í hitabylgjunni, á Súðavík mældust 22,4 stig sem er það mesta frá upphafi mælinga þar árið 1995 og á Bjargtöngum mældust 21,6 stig sem er mesti hiti sem þar hefur mælst, frá 1994.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert