Fækka þarf um rúmlega 100 þúsund fjár

Hætt er við að stemmningin í göngum og réttum dofni …
Hætt er við að stemmningin í göngum og réttum dofni eitthvað þar sem fé fækkar mest. Lögð er áhersla á að fækkunin verði skipuleg. mbl.is/Helgi Bjarnason

Allt stefnir í að framleiðsla á kindakjöti dragist saman um fimmtung eða fjórðung á næstu árum, til þess að eyða offramleiðslunni. Það þýðir að fækka þarf sauðfé í landinu um meira en 100 þúsund fjár. Gangi það eftir verður færra fé í landinu en verið hefur í marga áratugi.

Nú eru framleidd um og yfir 10 þúsund tonn af kindakjöti á ári. Sala innanlands er undir sjö þúsund tonnum. Mismunurinn hefur verið fluttur út og samkvæmt skýrslum og nefndarálitum sem birt hafa verið að undanförnu vantar mikið upp á að það verð sem fæst fyrir útflutt kjöt að meðaltali standi undir framleiðslukostnaði. Hefur þetta bitnað á afurðastöðvum og síðan bændum í miklu verðfalli á afurðum síðustu tvö árin. Offramleiðslan hefur einnig leitt til ójafnvægis á innlenda markaðnum og verðlækkunar.

Það virðist vera orðinn sameiginlegur skilningur bænda og stjórnvalda að svona sé ekki hægt að halda áfram og að færa þurfi framleiðsluna að þörfum innanlandsmarkaðar. Partarnir ganga misvel í landann og því þarf framleiðslan að vera aðeins yfir innanlandsmarkaði til að sinna þörfum hans fyrir hryggi. Það þýðir að alltaf verður að flytja eitthvað út. Í skýrslum síðustu daga er talað um 8 til 8,5 þúsund tonna framleiðslu, sem er rúmlega þúsund tonn yfir sölu á innanlandsmarkaði. Aðlögunin þarf væntanlega að gerast á nokkrum árum. Ekki má gleyma því að töluvert kjöt fellur til við grisjun í stofninum.

Um 476 þúsund kindur voru í landinu um síðustu áramót. Til að ná framleiðslunni niður í það horf sem rætt er um þarf að fækka fé um 20-25%, eða um 100 þúsund fjár.

Slíkur samdráttur hefur í för með sér verulegan tekjusamdrátt fyrir bændur og afurðastöðvar þeirra og getur orðið blóðtaka fyrir byggðarlög, sérstaklega héruð sem byggja mikið á sauðfjárrækt.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert