K100 og Hinsegin dagar í samstarf

Karen Ósk Magnúsdóttir gjaldkeri Hinsegin daga og Sigurður Þorri Gunnarsson …
Karen Ósk Magnúsdóttir gjaldkeri Hinsegin daga og Sigurður Þorri Gunnarsson dagskrár- og tónlistarstjóri K100 við undirritun samningsins. mbl.is/Valli

Samkomulag milli útvarpsstöðvarinnar K100 og Hinsegin daga var undirritað í vikunni. Er þetta annað árið í röð þar sem K100 og Hinsegin dagar gera með sér formlegan samstarfssamning.

Dagskrá K100 vikuna sem hátíðin fer fram í Reykjavík mun taka mið af því sem er að gerast þar sem viðburðir hátíðarinnar verða kynntir á hverjum degi auk þess sem skemmtilegir gestir líta við til þess að ræða eitt og annað sem tengist Hinsegin dögum og hinsegin samfélaginu. Föstudaginn 10. ágúst verður dagskrá stöðvarinnar snúið á hvolf og mun stöðin taka upp nafnið Hinsegin100.

Þetta er fjórða árið í röð sem stöðin fagnar Hinsegin dögum með þessum hætti. Á laugardeginum verður svo bein útsending frá Gleðigöngunni og dagskrá henni tengdri í Hljómskálagarðinum þar sem alls konar fólk verður tekið tali þannig að hlustendur fái stemninguna úr miðborg Reykjavíkur beint í æð hvar sem þeir eru staddir.

„Það er mjög ánægjulegt að hafa K100 og Árvakur í stórum hópi samstarfsaðila Hinsegin daga, annað árið í röð og við hlökkum til að leyfa hlustendum K100 að skyggnast á bakvið tjöldin á næstu dögum,“ segir Karen Ósk Magnúsdóttir, gjaldkeri Hinsegin daga, sem skrifaði undir samkomulagið fyrir þeirra hönd í gær.

„Hátíðin verður stærri og glæsilegri með hverju árinu, stendur nú í sex daga og á dagskránni eru yfir 30 viðburðir. Hinsegin dagar eru ein stærsta hátíð landsins og líklega sú eina sem ekki er með neitt starfsfólk heldur algjörlega undirbúin og framkvæmd af sjálfboðaliðum. Gott samstarf og stuðningur öflugra fyrirtækja er okkur því afar mikilvægt,“ segir Karen enn fremur.

Stolt að geta tekið þátt

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem útvarpsstöðin K100 gerir eitthvað í tilefni Hinsegin daga og er þetta annað árið í röð þar sem formlegu samstarfi á milli K100 og hátíðarinnar er komið á.

„Það gleður okkur mjög að taka þátt í þessari frábæru hátíð með formlegum hætti,“ segir Sigurður Þorri Gunnarsson, dagskrár- og tónlistarstjóri K100.

„Við á stöðinni viljum öll sem eitt fagna fjölbreytileikanum, stuðla að jafnara samfélagi og styðja við réttindabaráttu hinsegin fólks með því að auka sýnileika,“ segir Sigurður.

Eins og fram kom að ofan mun stöðin snúast á hvolf föstudaginn 10. ágúst og skipta um nafn og mun hún þá heita Hinsegin100. „Við ætlum að bregða á leik og breyta út frá venjulegri dagskrá og lagalista þennan eina dag. Við sláum upp heljarinnar veislu og hitum upp fyrir Gleðigönguna sem fram fer daginn eftir. Það mun ekki fara framhjá hlustendum okkar að Hinsegin dagar eru í gangi,“ segir Sigurður brosandi.

Dagskrá Hinsegin daga má finna á heimasíðu þeirra, hinsegindagar.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert