Ölvaður hjólreiðamaður stakkst á höfuðið

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Slys á farartækjum komu nokkuð við sögu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Tilkynnt var um reiðhjólaslys við Réttarholtsveg, go kart-slys í Garðabæ og umferðaróhöpp á bílum í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík.

Rétt fyrir klukkan 21 í gærkvöldi barst lögreglunni tilkynning um reiðhjólaslys við Réttarholtsveg. Þar hafði ölvaður maður hjólað á kantstein og steypst yfir hjólið. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans.

Um klukkan 18 í gær var tilkynnt um slys í Garðabæ. Ung kona var þar að aka go kart-bíl. Hún er talin hafa misst stjórn á bílnum og slasast við það á fæti. Konan fór sjálf á slysadeild þar sem saumuð voru saman sár sem hún hlaut á fætinum.

Rétt fyrir hálffimm í nótt var svo tilkynnt um útafakstur á Hafnarfjarðarvegi við Arnarnesbrú. Bifreið var ekið á kant og síðan á hlaðinn steinvegg. Ökumaðurinn, sem var einn í bifreiðinni, fór með sjúkrabíl á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar.

Rúmlega 22 í gærkvöldi var tilkynnt um umferðaróhapp á Vatnsendavegi. Ökumaður bifhjóls ók utan í hægri hlið bifreiðar, datt og reyndi síðan að aka af vettvangi. Ökumaður og farþegi bílsins héldu ökumanni bifhjólsins þar til lögregla kom á vettvang. Hann reyndist vera sviptur ökuréttindum.

Laust fyrir klukkan átta í gærkvöld var tilkynnt um umferðaróhapp á Suðurlandsvegi við Rauðavatn. Bifreið var ekið í „U-beygju“ yfir óbrotna línu og í veg fyrir bíl sem á móti kom. 

Ökumaður bifreiðar sem ekið var í veg fyrir fyrir kvartaði um eymsli í hné og ellefu ára farþegi hans um verk í brjóskassa eftir öryggisbelti. Sjúkrabíll kom á vettvang og flutti slasaða á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert