Brennisteinslykt finnst í Skaftártungu

Rennslið í Skaftá eykst hraðar en í hlaupinu 2015 og …
Rennslið í Skaftá eykst hraðar en í hlaupinu 2015 og hefur vatnið verið á undan áætlun. Ljósmynd/Auður Guðbjörnsdóttir

Skaftá hefur flætt yfir bakka sína við bæinn Búland í austanverðri Skaftártungu, töluvert á undan áætlun. Þegar mbl.is ræddi við Auði Guðbjörnsdóttur bónda á bænum átti hún von á að áin flæddi yfir bakka sína um tíuleytið í kvöld en ljóst að vatnsflaumurinn er á undan áætlun.

Auður segir að töluverð brennisteinslykt sé á svæðinu, en brennisteinsgös losna úr katlinum og streyma út samfara vatninu. Mælingamenn frá Veðurstofunni eru á leið í Hólaskjól til að mæla brennisteinsmengun en tilkynning barst frá mæli í sumarbústað á svæðinu.

Að sögn Jónasar Guðmundssonar hjá Landsbjörg er búið að rýma svæðið en hann segir björgunarsveitarmenn hafa gætt fyllstu varúðar og notast við gasgrímur.

Auður segir að fjölskyldan sé þó róleg enda engar eigur í hættu fyrir utan malarhaug, sem þau eiga og hefðu viljað bjarga áður en vatnið hrífur hann með sér. „Þegar fer að sjatna í ánni þurfum við líka að fylgjast með drullupyttunum,“ segir Auður en eftir síðasta hlaup átti fé það til að festast í aurnum.

Snappar frá hlaupinu

Auður er ættuð úr Dölunum og segir að Dalamenn séu spenntir fyrir hlaupinu enda ekki vanir sömu náttúruvám og Sunnlendingar; eldgosum, jarðskjálftum og nú hlaupum.

Hún er virk á Snapchat og snappar nú á aðganginum dalamenn sem hún deilir með bróður sínum, sem er í hálendisgæslu í Landmannalaugum, og annarri Dalakonu sem vinnur sem landvörður. „Það er um að gera fyrir þá sem vilja fylgjast með þessu að kíkja þangað.“ 

Búin að kveðja varnargarðinn

Varnargarður sem er á milli bæjarins og Skaftárdals og á að verja landið fyrir vatninu gaf sig í síðasta Skaftárhlaupi haustið 2015 og á Auður ekki von á öðru en að hann geri það aftur nú. „Regnvatnið hefur varla mátt aukast mikið, þá er farið að flæða yfir hann.“ Hún sé búin að kveðja varnargarðinn.

Það er fallegt um að litast í Búlandi.
Það er fallegt um að litast í Búlandi. Ljósmynd/Auður Guðbjörnsdóttir

Tvær brýr eru yfir Skaftá í dalnum og stóð sú eystri mjög tæpt eftir síðasta hlaup, laskaðist töluvert en stóð það þó af sér. Síðan þá hefur brúin verið endurbætt og steypt undir stöplana. Auður segir þó að það kæmi henni ekki á óvart ef brúin gæfi sig í hlaupinu sérstaklega ef krafturinn verður jafnmikill og hefur verið.

Fyrstu gögn frá Veður­stofu Íslands benda til þess að rennslis­aukn­ing Skaft­ár­hlaups sé meiri en í hlaupinu 2015 og braust vatn undan jöklinum á hádegi í dag, mörgum klukkutímum áður en búist hafði verið við því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert