Vélarbilun í vél Air Iceland Connect

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Sigurður Bogi

Flugvél Air Iceland Connect af gerðinni Dash-8 sem fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli rétt eftir kl. 15 í dag þurfti að snúa til baka á flugvöllinn þar sem bilun kom upp í hægri hreyfli vélarinnar og mikinn reyk lagði frá henni að sögn sjónarvotts. Vélin var nýlögð af stað til Egilsstaða þegar bilunin kom upp.

Mikill viðbúnaður var á svæðinu vegna atviksins og var farþegum vélarinnar meðal annars boðin áfallahjálp.

Uppfært 15:45 

Vélin er lent á Reykjavíkurflugvelli og engan sakaði. 44 farþegar voru um borð í vélinni auk áhafnar. Viðbragðsaðilar voru kallaðir til og gekk vinna þeirra vel fyrir sig, að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að vélinni hafi verið lent heilu og höldnu. „Hún var nýlögð af stað og þá kom tilkynning um mögulega bilun í hreyfli. Henni var þá snúið við, hún tók nokkra hringi í loftinu og lenti svo heilu og höldnu. Það var viðbúnaður á vellinum vegna þessa en sá viðbúnaður hefur verið afturkallaður.“

Engin hætta á ferðum

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, segir að flugvélar sem þessar séu hannaðar til þess að geta flogið á einum hreyfli þegar svona atvik koma upp og því hafi í raun engin hætta verið á ferðum. 

„Það kemur upp aðvörun um að hreyfillinn sé ekki í lagi. Flugmennirnir slökkva á hreyflinum í samræmi við vinnulag og koma svo inn til lendingar. Þessar vélar eru hannaðar fyrir að geta flogið á einum hreyfli þannig að það var í raun allt eðlilegt. Þetta er eitthvað sem flugmennirnir eru þjálfaðir fyrir,“ segir Árni.

Hann segir að flugfélagið hafi ekki séð slíka bilun í vél á sínum vegum áður. „Þetta er eitthvað sem auðvitað getur komið upp á og kom upp á þegar við vorum með Fokker vélarnar í einhver skipti. Þetta er ekki algengt en menn eru þjálfaðir fyrir að þetta geti gerst“.

Árni segir að nú sé unnið að því að koma farþegum vélarinnar til Egilsstaða. „Það er bara í vinnslu hvað við getum gert í þeim efnum“. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert