Sprungur gliðna við Tungnafellsjökul

Niðurföll hafa myndast á Tungnafellsjökulssvæðinu þar sem sprungur hafa opnast …
Niðurföll hafa myndast á Tungnafellsjökulssvæðinu þar sem sprungur hafa opnast sem gleypa mikið magn jarðvegs. Ljósmyndir/Páll Einarsson

Nokkur fjöldi niðurfalla hefur myndast vegna sprunguhreyfinga á svæði eldstöðvakerfis Tungnafellsjökuls. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir í samtali við mbl.is að hreyfingarnar á sprungunum tengist sigi í Bárðarbungu sem gerir það að verkum að jarðvegur hrynji ofan í sprungurnar sem eru 100  til 200 metra djúpar.

Vegurinn norðan Gæsavötnum var í hættu að verða ófær.
Vegurinn norðan Gæsavötnum var í hættu að verða ófær. Ljósmynd/Stefanía Ragnarsdóttir

Landverðir svæðisins birtu pistil um málið á Facebook-síðu Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir Öskju og Kverkfjöll. Þar kemur fram að landvörður hafi í vor keyrt fram á sprungur sem höfðu opnast undir veginum. Í kjölfarið lagði Páll og Ásta Rut Hjartardóttir, einnig jarðeðlisfræðingur, í leiðangur um svæðið, en þau hafa fylgst með svæðinu undanfarin ár. 

Opnuðust vegna Bárðarbungu

„Við tökum fyrst eftir mælanlegum breytingum á sprungum í kringum Tungnafellsjökuls-eldstöðina á meðan Gjálpargosinu stóð 1996,“ segir Páll. Þegar svæðið var skoðað árið 2009 kom í ljós að það voru ný niðurföll á svæðinu sem gáfu til kynna að hreyfing væri á sprungum svæðisins, að sögn hans.

„Síðan hefur þetta verið smátt og smátt að gerast og nú finnum við ný niðurföll á hverju ári. Þetta eru áframhaldandi breytingar. Það eru smávægilegar hreyfingar á sprungum og þær gleypa þá yfirborðsjarðveg og önnur laus efni á yfirborðinu,“ bætir hann við.

Samkvæmt Páli er erfitt að skilja hvað er nákvæmlega í gangi, en hann telur þetta nokkuð örugglega tengjast umbrotunum í Bárðarbungu. „Þetta uppgötvast auðvitað í sambandi við Gjálpargosið og síðan ágerðist þetta eftir Holuhraunsgosið og hrunið í Bárðarbungu. Hún hrundi niður um 65 metra á meðan Holuhraunsgosinu stóð og þá urðu hreyfingar á sprungum í Tungnafellsjökli.“

Páll Einarsson
Páll Einarsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Ekki mikil hætta

Hann segir svæðið sem slíkt ekki vera að síga. „Það seig náttúrulega mikið í Bárðarbungu og þá náttúrulega tognar á yfirboðinu í kring, sem hefur í för með sér spennubreytingar á stóru svæði. Það er nokkuð óvænt að þetta skyldi vera í næsta eldstöðvakerfi, sem sagt Tungnafellskerfið, sem er alveg sjálfstætt kerfi ekki tengt Bárðarbungu.“

Páll segir hreyfingarnar á sprungunum ekki endilega halda áfram, en að það muni halda áfram að hrynja ofan í sprungurnar af yfirborðinu þar sem tiltölulega lítil gliðnun geri sprungunum kleift að gleypa miklu efni. Hann segir slíkar sprungur geta verið 100 til 200 metra djúpar.

Hann segir ekki mikla hættu fyrir vegfarendur, nema niðurföllin myndist við vegi eins og gerðist í vor við veginn norðan Gæsavatna. „Það er nú búið að laga þetta núna, en það þarf að hafa þetta í huga. Sum þessara niðurfalla eru glannalega djúp ef menn eru á ferð þar, en það er nú ekki mikið fjölmenni á ferð þarna yfirleitt,“ segir Páll.

Ljósmynd/Ingibjörg Eiríksdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert