Ferðamenn sekir um utanvegaakstur

mbl.is/Hjörtur

Hópur ferðamanna frá Frakklandi gerðist sekur um utanvegaakstur á vegi F910 á svokallaðri austurleið inni á Möðrudalsöræfum um miðjan dag í gær.

Ferðamennirnir voru sex talsins á þremur jepplingum á leið á hálendið en ekið er þessa leið til að komast í Kverkfjöll og á Öskju.

Að sögn varðstjóra lögreglunnar á Austurlandi komust ferðamennirnir ekki yfir vað á Þríhyrningsá. Þeir brugðu á það ráð að fara út fyrir veginn og yfir ána á öðrum stað.

Lögreglunni barst tilkynning um athæfið.

Lögreglubíll í hálendiseftirliti frá embætti lögreglunnar á Norðurlandi eystra fór á staðinn, vann málið og sendi lögreglunni á Austurlandi gögnin.

Fólkið hefur verið boðað á lögreglustöðina á Egilsstöðum vegna málsins, sem mun enda með sektargreiðslu. Hún verður að lágmarki 50 þúsund krónur en að hámarki 500 þúsund krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert