Bókuðu að Líf hefði ullað framan í annan

Ull Lífar Magneudóttur rataði í fundargerð borgarráðs Reykjavíkur í dag.
Ull Lífar Magneudóttur rataði í fundargerð borgarráðs Reykjavíkur í dag. mbl.is/Hari

Samband minnihluta og meirihluta innan borgarstjórnar Reykjavíkur núna á fyrstu mánuðum nýs kjörtímabils hefur verið nokkuð stormasamt. Nýjasta dæmið um andrúmsloftið innan ráðhússins kom upp á borgarráðsfundi í dag, en þar létu fulltrúar minnihluta bóka „alvarlegar athugasemdir“ við það að Líf Magneudóttir, fulltrúi Vinstri græna, hefði ullað framan í annan borgarráðsfulltrúa í upphafi fundar.

Þetta kemur fram í fundargerð borgarráðs sem birtist á vef Reykjavíkurborgar fyrr í kvöld.

„Það er ekki sæmandi að borgarfulltrúar leyfi sér þá óháttvísi og dónaskap að ulla framan í aðra fulltrúa. Gera verður þá kröfu til kjörinna fulltrúa að þeir setji fram mál sitt með málefnalegum hætti og sýni hverjir [sic] öðrum almenna kurteisi,“ segir í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins í ráðinu.

Segja fulltrúarnir að ljóst sé að „full þörf“ sé á þeim samskiptareglum sem Kolbrún Baldurdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hafi lagt fram.

„[...] þar kemur einmitt fram að kjörnir fulltrúar leyfi sér ekki dónaskap á borð við grettur og geiflur eins og gert var í því tilfelli sem fram kemur hér að ofan,“ segir í lokaorðum bókunarinnar.

Í samtali við RÚV gekkst Líf við því að hafa ullað, rekið út úr sér tunguna, en sagði það þó hafa verið hugsað til þess að losa um þrúgandi andrúmsloft á fundinum. Hún sagðist jafnframt hafa beðið þann fulltrúa sem varð fyrir „ullinu“ tvívegis afsökunar, en þeim afsökunarbeiðnum hefði greinilega ekki verið tekið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert