Segir Ísland eftir á í frídögum grunnskóla

mbl.is/Styrmir Kári

Frídagar grunnskólabarna eru 73 á hverju ári. Foreldrar sem eru í fullu starfi eiga rétt á að safna sér tveimur frídögum á mánuði og eiga því 24 frídaga á ári. Sólveig Ragnheiður Gunnarsdóttir, þriggja barna móðir og sérfræðingur í sérhæfðum fjárfestingum, vakti athygli á þessu á Facebook-síðu sinni í gær.

Í samtali við mbl.is segir Sólveig að frídagarnir séu íþyngjandi. „Þó svo að ég og maðurinn minn eigum einhver sumarfrí þá viljum við auðvitað taka þau saman sem fjölskylda og viljum ekki þurfa að vera í sumarfríum á sitt hvorum tímanum.“

Hún bendir á að margir séu í enn verri stöðu en hún. „Þessir dagar eru 30% af vinnu fólks og á þeim þyrfti fólk bara að vera í fríi vegna þess að skólinn er lokaður. Þetta er síðan auðvitað miklu meira vandamál á heimilum þar sem foreldrar eru einstæðir. Svo hugsa ég líka til efnaminna fólks, það er ekki að fara að kaupa einhver rándýr námskeið fyrir börnin sem eru kannski orðin leið á frístundinni. Ef þú vilt leyfa þeim að fara í eitthvað annað en frístundina þá er það mjög dýrt.“

Segir Ísland eftirbát OECD-ríkja

Sólveig bendir á að ekki sé við kennara að sakast. „Samtök atvinnulífsins hafa skrifað mikið um þetta og það verður oft að einhvers konar slag við kennarastéttina. Ég vil frekar horfa á þetta út frá foreldrum og börnum og hef engan áhuga á að gera árás á kennara. Þeir eru mjög mikilvægur þáttur í lífum barnanna okkar og þegar upp er staðið þá snýst þetta um börnin.“

Hún segir Ísland á vissan hátt eftir á í þessum efnum. „Ég veit að það er ekki vinsæl skoðun en það væri kannski hægt að stytta skólagönguna um eitt skólaár, lengja skólann aðeins fram á sumarið og hækka laun kennara í staðinn. Við erum með eina lengstu grunnskólagöngu sem þekkist hjá OECD-ríkjum, tíu ár en meðaltalið í OECD er níu ár.“

Sólveig Ragnheiður Guðmundsdóttir.
Sólveig Ragnheiður Guðmundsdóttir.

Fyrir foreldra með börn á nokkrum skólastigum, eins og Sólveigu, er málið orðið nokkuð flókið en hún bendir á að auðvelt væri að einfalda foreldrum í þeirri stöðu lífið. „Það myndi einfalda heilmikið ef starfsdagar væru á sömu dögum í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar.“

Ragnar Þór, formaður stéttarfélagsins VR, segir sveigjanleika atvinnurekenda vera mikilvægan þátt í því að koma til móts við barnafólk og stemma stigu við miklu starfsálagi. „Við erum að skoða þessi mál og erum alltaf á tánum, að sama skapi hvetjum við fyrirtæki til þess að sýna þessu skilning. Aukið svigrúm leiðir til aukinnar vellíðunar og góðs starfsumhverfis sem skilar sér á endanum í betri framleiðni.“

Bara pláss fyrir 110% fólk

Mikið álag er algengt á íslenskum vinnumarkaði, samkvæmt Ragnari. „Því miður sjáum við aukið álag í gegnum kulnun í starfi, sjúkratryggingar og fleira. Þetta er í raun afleiðing þess að atvinnulífið er farið að gera óraunhæfar og allt of miklar kröfur á starfsfólk sem sýnir sig til dæmis í því að það er ekki pláss fyrir fólk sem vill vera í 50% eða 90% starfi, bara fólk sem vill vinna 110%.“

Hann bendir á að það geti komið niður á fyrirtækjum að ætlast til of mikils af starfsfólki sínu. „Til lengri tíma fellur kostnaðurinn beint á fyrirtækin sjálf í formi veikindadaga og mikillar starfsmannaveltu. Einnig fellur kostnaðurinn á ríkið í formi einstaklinga sem enda á langvarandi örorku. Þetta er fyrirtækjakúltúr sem við þurfum í samvinnu við atvinnulífið að taka á.“

Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson. mbl.is/​Hari

Ragnar vill því meina að ekki þurfi að fækka frídögum grunnskólabarna heldur þurfi atvinnulífið frekar að sýna barnafólki, sem og öðrum, aukinn sveigjanleika. „Ég get ekki gagnrýnt skólakerfið eða farið að ætlast til þess að kennarar fari að skerða sín réttindi til þess að koma til móts við atvinnulífið á almennum vinnumarkaði. Þá værum við sem stéttarfélag í mótsögn við okkur sjálf. Við viljum frekar styðja við kennara og biðla til atvinnulífsins um að sýna aukinn sveigjanleika því það mun á endanum borga sig.“

Margir kjarasamningar losna í ár og á næsta ári. Ragnar segir að styttri vinnuvika, sem til að mynda myndi koma foreldrum vel, verði líklega stórt baráttumál í gerð þeirra.

„Það sem við erum að skoða fyrir næstu kjarasamninga eru hugmyndir um stytta vinnuviku. Formaður Félags leikskólakennara, Haraldur Gíslason, hefur verið að viðra hugmyndir sem snúa að auknum sveigjanleika í því samhengi. Stytting vinnuviku getur þá komið barnafjölskyldum vel á þann hátt að þær geta safnað upp fleiri frídögum en aðrir gætu þá nýtt sér þessa styttingu með öðrum hætti. Ég reikna með því að stytting vinnuvikunnar verði ein af okkar lykilkröfum fyrir næstu kjarasamninga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert