Fá ekki nógu mörg lömb til útflutnings

Kjötið sem fer til Bandaríkjanna er skorið og því pakkað …
Kjötið sem fer til Bandaríkjanna er skorið og því pakkað í gasumbúðir. Það er flutt út ófrosið. Myndin er úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ekki gengur nógu vel að fá lömb til að slátra fyrir Bandaríkjamarkað. Áhugi var á því hjá Sláturhúsi KVH á Hvammstanga að auka útflutning til verslana Whole Foods Market og gagnkvæmur áhugi er hjá kaupendunum. Ekki er slátrað nógu mörgum lömbum nú í upphafi sumarslátrunar til að fullnægja eftirspurninni.

Síðustu árin hafa verið flutt út um 170 tonn af fersku lambakjöti til sölu í sælkeraverslunum Whole Foods Market í Bandaríkjunum. Áhugi var því á síðasta ári að auka við en það tókst ekki og enn er stefnt að aukningu í 200 tonn í haust. „Markaðurinn lítur nokkuð vel út en mikilvægt er að hafa byrjunina góða svo þeir hafi nóg til að hefja sölu í öllum verslunum samtímis. Þess vegna eru það vonbrigði að fá ekki fleiri lömb,“ segir Davíð Gestsson framkvæmdastjóri Sláturhúss KVH sem slátrar fyrir þennan markað. Slátrunin hófst 9. ágúst.

Hann hefur ekki skýringar á því hvers vegna illa gangi að fá lömb. Hátt álag er greitt á innleggsverð til að hvetja bændur til að slátra fyrr. Veltir Davíð því fyrir sér hvort bændur séu enn uppteknir í heyskap eða lömbin enn of létt.

Tíminn til sölu á Bandaríkjamarkað er stuttur. Salan fjarar smám saman út og lýkur fyrir þakkargjörðarhátíðina undir lok nóvember. Þá snúa sælkerarnir sér að öðru.

Davíð segir að sömu bændurnir taki þátt í þessu verkefni ár eftir ár og alltaf bætist í hópinn. „Ég er að vona að bændum sé hugleikið að koma vörunni sinni á markað þegar svona gluggi er opinn,“ segir hann.

Lakari grillvertíð

Almenn sláturtíð hefst um mánaðamót. Sauðfjárslátrun hefst hjá Norðlenska á Húsavík í lok næstu viku en hjá öðrum stórum sláturhúsum fyrstu vikuna í september. Sláturtíð lýkur í lok október eða byrjun nóvember.

Sala á kindakjöti gekk vel fyrstu fjóra mánuði ársins. Á þeim tíma var umtalsverð aukning. Líklegt er að verðlækkun á lambakjöti hafi haft áhrif. Aftur á móti hefur salan dregist saman í sumar, um tæplega 17% síðustu þrjá mánuði miðað við sumarið í fyrra. Staðan í lok júlímánaðar var sú að sala á lambakjöti síðustu tólf mánuði var tæplega 0,8% meiri en tólf mánuði þar á undan.

Forstjórar afurðastöðva sem rætt er við kenna veðrinu á suðvesturlandi um. Grillvertíðin hafi brugðist. „Salan gekk mjög vel fram á vorið. Sumarmánuðirnir voru frekar slakir. Veðrið í sumar hefur greinilega sett strik í reikninginn,“ segir Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands. Segist hann hafa orðið var við sömu þróun í fleiri kjöttegundum.

Lambið lætur undan síga

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, er með sömu skýringar. Hann segir að innanlandsmarkaður fyrir kindakjöt sé þokkalegur, á heildina litið. „Ég tel að menn verði að vera nokkuð sáttir með að selja álíka mikið magn af kindakjöti núna og í fyrra.“ Hann segir að hafa verði í huga að neysla á sauðfjárafurðum sé frekar að gefa eftir í löndum þar sem mikil hefð er fyrir neyslu kindakjöts, eins og Ástralíu, Nýja Sjálandi og Noregi vegna aukins framboðs af öðrum matvælum. Það sama muni gerast hér. Einnig verði að hafa í huga að erlendir ferðamenn stoppi hér í styttri tíma en áður og það hafi einnig áhrif á söluna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert