Háskólinn með mun minni tekjur á nemanda

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarpaði ársfund skólans og …
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarpaði ársfund skólans og fór yfir stöðu hans og áskoranir. Fram kom að tekjur skólans á nemanda eru 1,8 milljónir króna lægri en sambærilegra stofnana á Norðurlöndum. mbl.is/Gunnlaugur Snær Ólafsson

Tekjur Háskóla Íslands fyrir hvern nemanda þyrftu að hækka um 70% til þess að ná meðaltali Norðurlanda. Þá eru um þrjú þúsund brautskráningar úr Háskóla Íslands á ári hverju, þar af um eitt þúsund af félagsvísindasviði skólans og um 500 af hverju hinna sviðanna. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, á ársfundi skólans í dag.

Rektor lagði sérstaka áherslu á markmið skólans að efla tengsl víð atvinnulífið og voru kjörorð fundarins „undirstaða atvinnulífs og framfara“. Sagði hann miklar vonir bundnar við samstarf Háskóla Íslands og Alvotech og CCP. 

Birtar vísindagreinar frá háskólanum á ársgrundvelli hafa farið úr um 200 á ári 1997 í um 1.100 árið 2017.

Á eftir Norðurlöndunum og OECD

Í ræðu sinni þakkaði rektor ríkisstjórninni fyrir að hafa stutt við starfsemi og markmið skólans en benti jafnframt á að útgjöld til háskóla séu vel undir meðaltali OECD. Þá sagði hann flest samanburðarríki vera að auka fjárfestingu í menntun og að það væri mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að vera samkeppnishæft hvað þetta varðar.

Heildartekjur Háskóla Íslands á hvert ársverk nemenda er um 2,6 milljónir króna á meðan meðaltekjur háskóla hinna Norðurlandanna eru 4,4 milljónir króna. Háskóli Íslands fær því 1,8 milljónum króna minna og væri það 70% hækkun ef tekjur Háskóla Íslands næðu meðaltalinu.

Árið 2017 voru ársverk nemenda á ársverk alls starfsfólks við Háskóla Íslands 5,4, meðaltal Norðurlandanna var hins vegar 3,9. „Þetta þýðir að við myndum þurfa að ráða um 200 starfsmenn til þess að ná meðaltalinu,“ sagði Jón Atli.

Náð árangri

Samkvæmt Jóni Atla hefur tekist að ná talsverðum árangri í innleiðingu HÍ21-stefnu háskólans. Í stefnunni eru skilgreind 75 verkefni sem ætluð eru að efla kennslu, rannsóknir, tengsl við atvinnulíf og samfélag ásamt mannauð og gæðamenningu. Á öðru innleiðingarári eru 30% verkefnanna kláruð, 43% í vinnslu og  27% eru ekki hafin, en þau voru ekki skilgreind sem forgangsverkefni.

Fram kom á fundinum að í alþjóðlegum samanburði háskóla er Háskóli Íslands í 201.-250. sæti í heiminum sem er innan 2% marksins á heimsvísu, og er skólinn í 13.-17. sæti á Norðurlöndunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert