Íslenskur fararstjóri sektaður

Hér má sjá för eftir utanvegaakstur við Grafarlönd á Öskjuleið …
Hér má sjá för eftir utanvegaakstur við Grafarlönd á Öskjuleið frá því á mánudag. Ljósmynd/Lögreglan

Fjórir ökumenn greiddu samtals 1,4 milljónir króna í sekt á þriðjudag vegna utanvegaaksturs Jök­uls­ár­lón á Breiðamerk­urs­andi á sunnu­dag og í friðland­inu við Graf­ar­lönd á Öskju­leið á mánu­dag. Einn þeirra var íslenskur fararstjóri.

RÚV greindi fyrst frá því en mennirnir voru sektaðir í tvennu lagi.

„Það var gefin út sektargerð í tveimur lögregluembættum, Suðurlandi og Norðurlandi eystra. Það voru fjórir þeir sömu sektaðir á báðum stöðum. Þeir greiddu 100.000 krónur hver á Suðurlandi og 250.000 krónur hver í okkar umdæmi,“ segir Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri.

Í hópnum voru 25 erlendir ferðamenn á sjö breyttum jeppabifreiðum en ekki var öllum ökutækjunum ekið utan vega í þessum tilvikum. Tölu­verðar skemmd­ir voru unn­ar á landi við vest­ur­strönd Jök­uls­ár­lóns og gríðarlegt tjón á landi í Graf­ar­lönd­um norðan Herðubreiðar.

Við rann­sókn máls­ins kom fram hjá aðilum máls, að um kunn­áttu­leysi og vanþekk­ingu hefði verið að ræða og var beðist af­sök­un­ar vegna þess tjóns sem unnið var.

Jóhannes segir að ekkert bendi til þess að Íslendingurinn sem var sektaður starfi á ferðarskrifstofu, þrátt fyrir að hann hafi titlað sig sem fararstjóra.

Aðstoðaryfirlögregluþjónninn segist telja að minna sé um utanvegaakstur í hans umdæmi í ár en fyrra. 16 sektagerðir voru gerðar á Norðausturlandi í á síðasta ári. „Fulltrúinn sem afgreiddi þetta mál var að afgreiða aðra sektagerð sína í sumar,“ segir Jóhannes en bætir við að hann eigi eftir að fá tölur frá öðrum fulltrúa. „Það virðist vera fækkun miðað við síðasta ár.“

Hann telur að ötult starf landvarða og lögreglu á Norðausturlandi skili sér í færri tilvikum þar sem ferðamenn aka utan vegar. „Landverðir og lögregla hafa gert meira í því að tala við fólk þegar það er að leggja á hálendið. Auk þess höfum við afskipti af fólki á hálendinu og leggjum áherslu á þessi mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert