Brjóta rúður í gamla skólanum

Rúður hafa verið brotnar og neglt fyrir fjölda annarra glugga …
Rúður hafa verið brotnar og neglt fyrir fjölda annarra glugga í hinu gamla skólahúsi Kársnesskóla í Kópavogi. mbl.is/Helgi Bjarnason

Ekki liggur fyrir hvenær byrjað verður á að rífa húsnæði Kársnesskóla við Skólagerði í Kópavogi en það var dæmt ónýtt vegna rakaskemmda. Skrifað verður undir samninga við verktaka um niðurrifið í næstu viku. Jafnframt er unnið að undirbúningi nýrrar skólabyggingar sem hýsa mun bæði skóla og leikskóla og er stefnt að því að útboð hönnunar verði auglýst um aðra helgi, samkvæmt upplýsingum Kópavogsbæjar.

mbl.is/Helgi Bjarnason

Eftir að hætt var að nota húsnæði Kársnesskóla við Skólagerði hafa ítrekað verið unnar skemmdir á húsinu. Meðal annars hefur ungt fólk lagt bílum á körfuboltavelli á bak við skólann á kvöldin og sparkað boltum í glugga og brotið rúður. Starfsmenn Kópavogsbæjar koma reglulega og negla fyrir glugga og hreinsa upp glerbrot til að reyna að koma í veg fyrir að börn sem þarna eru að leik skeri sig.

Bæjarstjórn ákvað sl. vor að bjóða út niðurrif skólahússins. ABL Tak ehf. átti lægsta tilboð, rúmar 33 milljónir, og samþykkti bæjarráð að taka því. Dregist hefur að ganga frá samningum vegna þess að annar bjóðandi gerði athugasemdir við útboðið. Nú liggur fyrir að skrifað verður undir samninga við verktakann í næstu viku. Niðurrifið getur hafist í kjölfarið en Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, segir að ekki sé vitað hvaða dag framkvæmdir hefjast.

Skóli á mörgum stöðum

Eftir að ákveðið var að rýma skólahúsið, í febrúar á síðasta ári, hefur nemendum verið kennt á nokkrum stöðum, í húsnæði fyrrverandi Þinghólsskóla, í gömlu bæjarskrifstofunum við Fannborg og í lausum kennslustofum á Vallargerðisvelli. Þar var bætt við lausum skólastofum í sumar.

Nú liggur fyrir að útboð á hönnun nýs húsnæðis við Skólagerði verður auglýst um aðra helgi. Miðað er við að þar verði yngstu börnum skólans kennt en þeim eldri í skólahúsnæðinu við Kópavogsbraut. Í nýja húsinu verður samrekinn leikskóli og frísund og gert ráð fyrir aðstöðu fyrir tómstundastarf og tónlistarkennslu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert