Sýn tapar fjórum milljónum

Höfuðstöðvar Sýnar eru við Suðurlandsbraut.
Höfuðstöðvar Sýnar eru við Suðurlandsbraut. Ljósmynd/Aðsend

Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn hf. tapaði fjórum milljónum króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs, samkvæmt tilkynningu félagsins sem send var út eftir lokun markaða í dag. Sýn hét áður Fjarskipti ehf. (Vodafone) og keypti í desember í fyrra tilteknar eignir og rekstur fjölmiðlafyrirtækisins 365 miðla. Áhrifa af því gætir í samanburði fjárhæða á milli ára.

Í reikningum Sýnar kemur fram að tekjur á öðrum ársfjórðungi hafi numið 5.444 milljónum króna, sem er aukning um 61% á milli ára. Alls jukust tekjur fyrirtækisins um 65% á fyrri helmingi ársins, miðað við sama tímabil í fyrra.

Stefán Sigurðsson, forstjóri fyrirtækisins, segir í tilkynningu að annar fjórðungur ársins hafi verið „mjög stór samþættingafjórðungur“ þar sem mikilvægum áföngum hafi verið náð, á borð við tilfærslu allra farsímaviðskiptavina 365 yfir á kerfi Sýnar, sameiningu fjölmargra deilda og þjónustukerfa og flutning útvarps- og dagskrárgerðar úr Skaftahlíð.

Mikilvæg samrunaverkefni sögð í höfn

„70% af starfsmönnum keyptra eininga starfa nú á Suðurlandsbraut. Þetta þýðir að mikilvæg samrunaverkefni eru í höfn og því er búist við að kostnaður taki frá þriðja fjórðungi að lækka hratt. Við búumst þar af leiðandi við mun sterkari fjórðungum seinni hluta árs þar sem bæði kostnaður lækkar auk þess sem tekjur fjórðunga seinni hluta árs eru sterkar vegna árstíðasveiflu, fjarskiptin sterk á þriðja fjórðungi og fjölmiðlunin á fjórða fjórðungi,“ er haft eftir Stefáni í tilkynningu félagsins.

EBITDA-hagnaður félagsins nam 718 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi og lækkar um 43 milljónir á milli ára. Á fyrri helmingi ársins var EBITDA-hagnaður 1.436 milljónir, sem er 3% lækkun frá fyrra ári.

Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar hf.
Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar hf. mbl.is/Ómar

Forstjórinn segir í tilkynningu að EBITDA-hagnaður sé undir væntingum, vegna kostnaðarsamra samrunaverkefna. Hann segir rekstrarkostnaðinn hærri en vænst hafði verið, en ekki vegna einskiptisliða, heldur einnig vegna kostnaðar sem tengist umfangsmiklum samrunaverkefnum, „sem endurspeglast í mikilli yfirvinnu, tvöfaldra kerfa í rekstri, tvöfaldri húsaleigu, auk takmarkaðs möguleika fyrirtækisins [til] að bregðast við háum almennum launahækkunum í miðru samrunaferli.“

„Framkvæmd samlegðarverkefna er hins vegar á áætlun og mun skila sér í mun betri rekstri frá þriðja fjórðungi. Meiri kostnaður á fyrri hluta árs en búist var við gerir að verkum að félagið verður við neðri mörk áður útgefinna horfa fyrir árið 2018. Útgefnar horfur fyrir EBITDA árin 2019 og 2020 standa óbreyttar,“ segir Stefán í tilkynningu.

Hann segir jafnframt áhættusamasta og stærsta kafla samrunans að baki og að tekjur og viðskiptavinafjöldi sé í samræmi við upprunalegar áætlanir.

Árshlutareikningur Sýnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert