Fólk þarf að læsa og loka öllum gluggum

Horft yfir Eskifjörð.
Horft yfir Eskifjörð. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við vitum ekkert meira, því miður,“ segir Jónas Vilhelmsson Jensen, yfirlögregluþjónn á Austurlandi. Greint var frá því í gær að ekki hefði tekist að hafa uppi á grunsamlegum aðilum sem voru á ferð í Neskaupstað og Eskifirði en þeir náðu að stela fjármunum í einu húsi á Eskifirði.

Við erum með bíla úti að skanna umhverfið og vorum til miðnættis í gær,“ segir Jónas. Samkvæmt lýsingu sem lögregla fékk mun vera um að ræða karlmann á fertugsaldri, með dökkt og vel snyrt skegg. Talið er að hann sé um það bil 180 senti­metr­ar á hæð, með brún­an bak­poka og í létt­um dökk­um jakka.

Greint hefur verið frá svipuðum innbrotum fyrr í sumar og benti Jónas á að lögreglan á Austurlandi hafi haft uppi á innbrotsþjófum í Breiðdalsvík í lok júní. Íbúi á Fáskrúðsfirði hafði komið að manni sem flúði en lögregla stöðvaði að lokum för hans.

Tveir voru í bílnum en talið var að um skipulagða brotastarfsemi væri að ræða og voru mennirnir grunaðir um þjófnaðarbrot á nokkrum stöðum á landinu.

Jónas sagði að svipaðar sögur væri að segja af Suðurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi. „Þetta er alveg ömurlegt.“

Lög­regl­an biður fólk að hafa í huga að í sum­ar hafi verið farið inn í hús víða um land og verðmæt­um stolið. Ein­kenni þessa hef­ur verið að aðilar fara inn í ólæst hús og hef­ur þetta verið að ger­ast yfir dag­inn, þegar fólk er vana­lega í vinnu. 

„Það þarf að læsa og loka öllum gluggum þegar fólk yfirgefur heimili sín,“ segir Jónas. Hann bætir því við að hann hafi orðið var við nokkra hræðslu hjá fólki, sem ætti að vera ástæðulaus:

Við höfum ekki heyrt af neinu ofbeldi,“ segir Jónas en þjófarnir hafa látið til skarar skríða þegar enginn er heima.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert