Enginn fer inn sem neitar að blása

Nú í hádeginu eru busar tolleraðir og svo er busaball …
Nú í hádeginu eru busar tolleraðir og svo er busaball í kvöld. Ekki eru allir á eitt sáttir með nýjar reglur á ballinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Busar í Menntaskólanum í Reykjavík blása í áfengismæli á busaballinu á eftir. Rektor segir að skólinn sé bara að fylgja fordæmi annarra skóla. Nemendur eru óánægðir.

Formlega segja reglur um svona böll að allir undir lögaldri eigi að blása á svona viðburðum en hingað til hefur það bara verið sagt til málamynda. Nú á að herða reglurnar.

Skólayfirvöld tilkynntu foreldrum nýnema þetta á mánudaginn. Þetta hafði kvisast um ganga skólans frá því á skólasetningunni en var í vikunni staðfest af Elísabetu Siemsen, rektor skólans.

„Bara boðið upp á að blása“

Elísabet Siemsen, rektor MR, segir í samtali við mbl.is að enginn sé skikkaður til eins eða neins. „Þeim er bara boðið upp á að blása. Við gerum þetta til að hjálpa þeim að taka ákvörðun um að hafna því að drekka áfengi svona ung,“ segir Elísabet, sem tók við stöðu rektors síðasta vetur.

„Við setjum reglur fyrir böll og ef fólk neitar að blása þegar það er beðið um það, þá fer það ekki inn. Það er alveg klárt mál. En það eru líka fleiri en nýnemar sem blása. Það er öllum boðið upp á það og gulrótin er veglegur edrúpottur með vinningum,“ bætir hún við.

Elísabet segir að með þessu sé MR „að fara í lið með öðrum framhaldsskólum, Versló, FG, Kvennó og Flensborg.“ Þessir skólar hafa í gegnum tíðina látið nýnema blása á böllum.

„Fólk er ánægt með að við séum að taka ábyrgð. Ég hef fengið fjölda símtala þar sem okkur er þakkað fyrir að taka þessa ákvörðun. Ég vil fyrst og fremst að börnin skemmti sér og það fallega,“ segir Elísabet.

Reglurnar óskýrar og flóknar

Að því er kemur fram á vef umboðsmanns barna ver 71. grein stjórnarskrárinnar rétt fólks til að blása ekki, ef það kýs að gera svo ekki. Þó hefur verið skráð í reglur flestra framhaldsskóla að láta megi börn blása ef grunur leikur á um áfengisdrykkju.

Í strangasta skilning á þessum ákvæðum eru skólayfirvöld því að gefa sér að grunur leiki á um áfengisdrykkju allra nýnema. Það kalla sumir vantraust, en Elísabet hafnar þeirri orðræðu. „Ég er ekki sammála því. Hægt er að gera allt tortryggilegt ef viljinn er fyrir hendi. Fyrstu böllin eru erfið og við erum bara að fylgja þróun í menntamálaráðuneytinu í þessum efnum.“

Kristján Guðmundsson er formaður 6. bekkjarráðs Menntaskólans.
Kristján Guðmundsson er formaður 6. bekkjarráðs Menntaskólans. Ljósmynd/Aðsend

Bara busar teknir og mælt í þeim blóðið

„Þetta er frekar fáránlegt,“ segir Kristján Guðmundsson, formaður 6. bekkjarráðs í MR. Honum er mikið niðri fyrir, eins og mörgum öðrum nemendum skólans. Hann segir skólastjórnina ekki treysta nýnemum fyrir þessari nýju ábyrgð, að skemmta sér fallega.

„Ef þeir ætla að hengja fólk á því að það virðist ölvað, þá verða þeir að láta það ganga yfir alla nemendur. Í staðinn taka þau bara busana fyrir og mæla í þeim blóðið þegar þau koma inn á fyrsta ballið sitt.“

Sagt að mæta ekki í fyrirpartí

Hefð er fyrir að elstu nemendur bjóði þeim yngri í fyrirpartí fyrir busaballið. Þar hefur nýnemum verið boðið áfengi. Kristján segir að starfsmenn skólans hafi verið að beina því til nýnema, að sniðganga þessi fyrirpartí.

„Það er boðið upp á léttvín og bjór og svo skröllum við aðeins saman og kynnumst. Það er enginn neyddur til að drekka áfengi og margir sem velja að gera það ekki,“ segir Kristján.

Á svona böllum er öryggisgæsla og hlúð er að þeim sem fara yfir um, segir Kristján. „Það liggur fyrir að áfengislögum á Íslandi er ekki fylgt. Margir byrja að drekka yngri en má. Er þá ekki betra að þau drekki í vernduðu umhverfi eins og á böllum en einhvers staðar annars staðar þar sem enginn hugsar um öryggi þeirra“ spyr hann sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert