Smakkaði amfetamín á leikskólanum

Drengurinn fann poka með amfetamíni á leikskólalóðinni og lagði sér …
Drengurinn fann poka með amfetamíni á leikskólalóðinni og lagði sér fíkniefnið til munns. mbl.is/​Hari

Fimm ára drengur fann poka með amfetamíni á leikskólalóð í Kópavogi síðdegis í gær og lagði efnið sér til munns. Faðir drengsins, Kristinn Ólafur Smárason, segir í samtali við mbl.is að ekkert ami að drengnum, sem undirgekkst ítarlega eiturefnaskoðun á Barnaspítala Hringsins eftir atvikið.

„Hann hefur sennilega tekið það lítið í munninn eða náð að skola mest úr svo að þetta hefur ekki haft nein teljandi áhrif á hann, sem betur fer,“ segir Kristinn, sem fékk símhringingu frá leikskóla sonar síns um klukkan hálffjögur í gær.

„Okkur er sagt að hann hafi verið úti á leikskólalóðinni, fundið poka með hvítu dufti og ákveðið að smakka það. Honum fannst það sem betur fer mjög vont á bragðið og endaði á því að fara til leikskólakennarans og biðja um vatnsglas til að skola munninn. Þá sá kennarinn hvers kyns var. Hann var greinilega þarna með poka af fíkniefnum,“ segir Kristinn.

Starfsmenn leikskólans Fögrubrekku hringdu í kjölfarið í lögreglu og foreldrana og ítrekuðu að sögn Kristins fyrir þeim að það liti út fyrir að vera allt í lagi með drenginn.

Tekinn í ítarlega skoðun

„Engu að síður hljóp ég út á leikskóla,“ segir Kristinn sem býr nálægt leikskóla sonar síns og hefur yfirsýn yfir leikskólalóðina heiman frá sér. Er hann kom á staðinn var strákurinn hinn sprækasti, en foreldrarnir hringdu í eiturefnamiðstöð Landspítala, sem ráðlagði þeim að koma með hann á bráðamóttöku barna á Barnaspítala Hringsins.

Þangað fóru þau og tóku pokann með hvíta duftinu með.

Brunað var með drenginn á Barnaspítala Hringsins, þar sem hann …
Brunað var með drenginn á Barnaspítala Hringsins, þar sem hann fór í ítarlega skoðun. mbl.is

„Við brunuðum niður á spítala þar sem hann fór í alls konar próf; hjarta og lungu voru hlustuð og tekin þvagprufa og hjartalínurit,“ segir Kristinn, en ekkert prófanna sýndi neitt óeðlilegt, blessunarlega.

Ætlar að hringja í lögreglu sjái hann fólk á lóðinni

„Þegar við vorum uppi á spítala komu tvær lögreglukonur og tóku efnið með sér til greiningar, þær töldu fyrst að þetta væri kókaín, en síðan var niðurstaðan eftir efnagreiningu niðri á lögreglustöð að þetta væri amfetamín,“ segir Kristinn, sem segist ætla að fylgjast með mannaferðum á leikskólalóðinni utan þess tíma sem leikskólinn er opinn héðan í frá.

Hann segir að þar séu gjarnan krakkar, í elstu bekkjum grunnskóla eða á menntaskólaaldri, sem séu „kannski að reykja og eitthvað“, en sig hafi ekki grunað að þau væru að neyta fíkniefna.

Kristinn segir að nú muni hann alltaf hringja í lögregluna þegar hann sjái ungmenni safnast saman á leikskólalóðinni, sem sé staður sem ætti að vera með öllu laus við fíkniefni.

„Þetta er seinasti staðurinn þar sem maður vill hafa þetta. Einhvers staðar þurfa vondir að vera og allt það, en kannski ekki á leikskólalóðinni,“ segir Kristinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert