Þegar brugðist við með breytingum

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir lagabreytingar í kjölfar dóma, þar sem ríkið var dæmt til þess að endurgreiða skatta vegna innflutnings á matvörum, hafa miðað að því að tryggja að gildandi regluverk brjóti ekki í bága við stjórnarskrána. Að öðru leyti sé það dómstóla að skera endanlega úr um það.

Fjallað var um það í gær að fimm innflutningsfyrirtæki hafa stefnt íslenska ríkinu vegna ofgreiddra skatta í formi tolla á landbúnaðarvörur og krefjast þau um fjögurra milljarða í endurgreidda skatta. Dómkröfur fyrirtækjanna eru á þriðja milljarð, en auk þess er krafa gerð um greiðslu vaxta og dráttarvaxta að sögn lögmanns þeirra.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Félagi atvinnurekenda að tollar á innflutningi á landbúnaðarvörum hér á landi hafi þá sérstöðu að ráðherra sé, undir ákveðnum kringumstæðum, heimilt að lækka þá eða fella niður. Málsókn fyrirtækjanna byggist á því að skattar skuli samkvæmt lagaákvæðum aðeins ráðast af lögum.

„Íslenska ríkið hefur áður verið dæmt til að endurgreiða skatta vegna innflutnings á matvörum. Í kjölfar þeirra dóma var brugðist við með lagabreytingum með það að markmiði að skýra nákvæmlega hlutverk ráðherra í þessu regluverki. Við þessa vinnu leitaði ráðuneytið til lögmanna með sérþekkingu á þessum málaflokki auk þess að taka tillit til tilmæla frá Umboðsmanni Alþingis. Þetta var fyrir mína tíð í ráðuneytinu en ég fæ þær upplýsingar að þessar breytingar hafi verið fullnægjandi og því brjóti núgildandi regluverk ekki gegn stjórnarskrá. Það er þó dómstóla að skera endanlega úr um það,“ segir Kristján Þór í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert