Fór út að hjóla og kom aldrei aftur heim

Lára Sif Christiansen og eiginmaður hennar, Leifur Grétarsson.
Lára Sif Christiansen og eiginmaður hennar, Leifur Grétarsson. mbl.is/Ásdís

„Ég var á hjólaæfingu í Öskjuhlíð; þetta var fyrsta fjallahjólaæfingin mín. Við vorum bara að æfa okkur og allt gekk vel. Við vinnufélagarnir hjá Icelandair höfðum verið að hjóla saman allan veturinn og sumarið áður, en alltaf á götuhjólum,“ segir Lára Sif Christiansen flugmaður sem lenti í alvarlegu og örlagaríku slysi í Öskjuhlíð fyrir rúmu ári.

Lára var í tæknilegri æfingu í smá grjóti og frá einni hæð yfir á aðra var lægð sem var aðeins of djúp til að hægt væri að stökkva yfir á hjólinu. „Brúin var í raun eins og planki sem lá þarna yfir. Ég var búin að fara yfir hann tvisvar og var í þriðju ferðinni minni. Ég fór ekki hratt, frekar of hægt ef eitthvað er, og hjólið skrikaði út fyrir. Þá skutlaðist ég fram yfir hjólið, en þetta var ekki mikið fall. Þetta var ekki glannaskapur og ég var með hjálm,“ segir Lára og útskýrir að hún hafi nánast dottið í hálfan kollhnís og lent á bakinu.

Lára lamaðist samstundis fyrir neðan brjóst og áttaði sig um leið á því. „Ég byrjaði bara að öskra. Ég vissi það,“ segir Lára sem hringdi strax í eiginmann sinn, Leif Grétarsson. „Vinnufélagar hans sáu hvernig hann fölnaði í framan. Ég öskraði í símann: Ég er lömuð, ég er lömuð, ég á aldrei eftir að geta gengið eða flogið.“ 

Í viðtalinu við Láru sem birtist í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins segja þau hjónin hvernig síðasta ár hefur verið en þau voru nýgift þegar slysið varð. Lára eyddi öllum sínum frítíma uppi á fjöllum áður en slysið varð, á skíðum eða þeysandi um á hjóli, og hefur þurft að læra á lífið upp á nýtt. 

mbl.is/Ásdís

„Maður hélt náttúrlega alltaf í vonina. Tíminn leið og það var talað um að mænusjokk gæti varað í allt að þrjá mánuði og það tæki tíma fyrir bólgur að hjaðna. En svo var ekkert að gerast,“ segir Lára og segir það hafa verið mjög skrítið að byrja lífið upp á nýtt. Lára bjó í gömlu húsi í miðbænum með þröngum stigum sem var ómögulegt fyrir hana að komast um eftir slysið. 

„Ég fór aldrei aftur í þá íbúð. Ég fór bara út að hjóla og fór aldrei aftur heim. Við keyptum svo þessa íbúð þegar ég lá ennþá inni á Grensási. Leifur og mömmurnar fóru að skoða og hún var bara keypt,“ segir Lára og hlær. 

Heldurðu að þú getir sætt þig við þetta?

„Maður verður bara að gera það. Ég hef ekki val og þá verður maður að gera það besta úr þessu fyrst þetta er skeð,“ segir hún og segist enn vera að vinna úr áfallinu en hver dagur sé aðeins betri en sá á undan.

„Ég er hætt að hugsa dagsdaglega; verð ég einhvern tímann aftur glöð? Nú er allt orðið aftur eðlilegt. Svo verður maður að læra að hlæja að alls kyns óþægilegum hlutum sem maður lendir í núna,“ segir hún og þau Leifur segjast oft skella upp úr vegna aðstæðna sem komi upp. Húmorinn er ekki langt undan, þrátt fyrir erfiðleikana.

Andlega og líkamlega styrkjandi

Í Reykjavíkurmaraþoni 2017 hlupu fjölmargir til styrktar Láru, en safnað var svo hún gæti komist á endurhæfingarstöð í Bandaríkjunum.

„Ég náði ekki utan um þetta allt, þetta var stórkostlegt. Ég fékk kveðjur frá ótrúlegasta fólki sem ég þekkti ekki einu sinni,“ segir Lára og segir þennan dag, mitt í sorginni, hafa verið mikinn gleðidag.

„Já, það var geggjað veður og rosa mikil gleði.“

Lára og Leifur gátu notað það fé sem safnaðist til þess að fara í þrjár ferðir til Denver í Colorado, þar sem þau dvöldu fimm til sex vikur í senn. Hún segir endurhæfinguna þar hafa reynst sér vel og verið á allt öðru plani en hér heima.

„Stöðin sérhæfði sig í heila- og mænuskaða. Það var margt fólk þarna inniliggjandi en þarna var mest ungt fólk. Það var svo gaman að umgangast það og heyra sögur þess. Það er eina fólkið sem skilur mig. Læknarnir mínir þarna úti voru tveir í hjólastól líka. Ameríkanar eru svo glaðir og opnir og þjálfararnir þarna voru allir svo hressir og reyndir og alltaf til í að prófa eitthvað nýtt,“ segir Lára og útskýrir að mikið hafi verið lagt upp úr meðferð í gegnum tómstundir, útivist og hreyfingu.

mbl.is/Ásdís


Eftir endurhæfinguna í Denver fylltist Lára eldmóði og sá að ýmsir möguleikar væru í boði til þess að stunda hreyfingu og útivist þótt hún væri lömuð.

„Ég keypti mér götuhjól og við erum að hugsa um að kaupa okkur kajak, enda stutt að fara héðan út á sjó,“ segir Lára, en hún æfir sig oft á hjólinu meðfram strandlengjunni.

Hjónin virðast ekki láta neitt stoppa sig og nefna að hlutirnir gætu verið verri.
„Við erum líka þakklát fyrir að þetta fór ekki verr, sérstaklega eftir að við vorum þarna úti og sáum fólk sem var kannski ekki með kraft í höndum eða hafði lent í höfuðmeiðslum. Þetta gæti verið talsvert verra. Við getum gert gott úr því sem við höfum í dag, þó að það sé mikil breyting í lífinu,“ segir Leifur.

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.

Lára þurfti að leggja flugið á hilluna og var það henni mikið áfall. Draumastarfið var því ekki mögulegt lengur og þá kom sér vel allt námið sem hún lagði á sig áður en hún gerðist flugmaður en hún er með BS-próf i iðnaðarverkfræði og MA í fjármálahagfræði. Eftir að allri endurhæfingu var lokið var hún tilbúin að fara aftur út á vinnumarkaðinn og halda áfram með lífið. 

„Icelandair var búið að bjóða mér starf í verkfræðideildinni, en þau voru ekkert að pressa á mig. Það var auðvitað mikið áfall út af fyrir sig að geta ekki flogið, en ég fékk óvænt atvinnutilboð og er nú framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FIA). Mér líkar það mjög vel, starfið er mjög skemmtilegt og það er líka krefjandi að gera eitthvað allt annað en að fljúga,“ segir Lára, en hún er nú komin þar í fullt starf. 

Viðtalið birtist í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert