Segir ekkert gert fyrir tekjulága

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það sem vekur athygli og depurð er að sjá svona augljóslega að það er ekki verið að taka tillit til kjara öryrkja, eldri borgara og láglaunafólks. Þessir hópar eru skildir eftir nú sem endranær,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, þegar hún er innt viðbragða við fjárlögum fyrir árið 2019.

Rík­is­stjórn Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks legg­ur til að per­sónu­afslátt­ur hækki um 1 pró­sentu­stig um­fram lög­bundna 12 mánaða hækk­un vísi­tölu neyslu­verðs á ár­inu 2019. Þetta kom fram í kynn­ingu Bjarna Bene­dikts­son­ar fjár­málaráðherra á fjár­lög­um. Per­sónu­afslátt­ur er þannig hækkaður um 4%. 

Sam­hliða hækk­un per­sónu­afslátt­ar er einnig lagt til að barna­bæt­ur verði hækkaðar, eða sem svarar til 1,6 milljarða króna frá fyrri fjár­lög­um, sem er 16% hækk­un á barna­bót­um milli ára. Inga segir þetta sé skref í rétta átt.

„Það sama má segja um hækkun vaxtabóta en miðað við stöðugleikann, góðærið og 29 milljarða króna afgang úr ríkissjóði þá hefði maður viljað sjá meira fyrir þá sem þurfa á því að halda,“ segir Inga en gert er ráð fyrir því að af­gang­ur á heild­araf­komu rík­is­sjóðs verði 1% af vergri lands­fram­leiðslu árið 2019, eða um 29 millj­arðar króna.

Hækkun til RÚV bitnar á þeim fátækustu

Inga hefði viljað sjá forgangsraðað á annan hátt í fjárlögunum. Til að mynda hefði hún sleppt því að lækka bankaskatt og hækka nefskattinn til RÚV. Hið síðarnefnda segir hún að bitni á þeim sem minnst hafi milli handanna:

„Þetta bitnar á þeim sem síst skyldi, sem eiga ekkert fyrir. Hinir sem eru að setja reglurnar, eins og ráðherrar, þeir finna ekkert fyrir því hvernig þeir eru að fara með landann með því að hækka álögur hingað og þangað. Þá munar ekkert um að borga þetta. Þetta veitir þeim þungt högg sem ná ekki endum saman.“

Inga segir að það gefi augaleið að sá þjóðfélagshópur sem þurfi á mestu hjálpinni að halda sé skilinn eftir.

„Sá þjóðfélagshópur sem þarf á mestu hjálpinni að halda er skilinn eftir og það er ekki gert nóg. Þegar fólk státar sig af því að hækka persónuafslátt um fjögur prósent þá eru það ekki nema rétt rúmlega 2.000 krónur á mánuði. Af þessum fjórum prósentum er hin raunverulega hækkun eitt prósent því þrjú af þeim eru lögbundin vísitöluhækkun. Þau eru ekki að gera neitt. Það á ekki að hreyfa við húsnæðisvísitölunni eða verðtryggingunni. Það sem myndi hjálpa okkur öllum í komandi kjarabaráttu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert