Gáttaður á svikum Framsóknarflokksins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld að ríkisstjórnin væri kerfisstjórn með enga pólitíska sýn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, skaut föstum skotum á fyrrverandi félaga sína í Framsóknarflokknum í eldhúsdagsumræðum á Alþingi. Hann sagði að það hefði tekið á að fylgjast með flokknum gefa eftir öll sín stærstu loforð undanfarið.

Sigmundur sagði að hans gamli flokkur hefði verið stofnaður sem róttækt umbótaafl en hefði brugðist við sínu versta tapi í 100 ára sögu flokksins með því að gefa eftir öll sín stefnumál fyrir ráðherrastóla.

Hann tíndi ýmis mál til en sagði að svik Framsóknarflokksins við landsbyggðina og íslenska matvælaframleiðslu væru átakanlegust. „Þrátt fyrir að hafa haft ýmsar áhyggjur af þessari ríkisstjórn trúði ég því þó að hún væri skárri kostur en sumir aðrir fyrir bændur og byggðir landsins. Það er öðru nær,“ sagði Sigmundur. 

Hann sagði að ríkisstjórnin væri kerfisstjórn með enga pólitíska sýn. Hann nefndi jafnlaunavottun og sagði að forsætisráðherra væri þar að stela heiðrinum frá Viðreisn. „En málið er jafnvitlaust fyrir það,“ sagði Sigmundur.

„Ríkisstjórn sem hefur aðeins starfað í níu mánuði hefur nú, með nýju fjárlagafrumvarpi, á 100 ára afmæli fullveldisins, slegið 100 ára met í útþenslu báknsins,“ sagði Sigmundur og bætti við að mest færi í að fóðra gölluð kerfi og auka á vandann.

„Marxísk leið“ í heilbrigðismálum

Hann minntist einnig á heilbrigðismál og sagði að meirihluti aukningar til heilbrigðismála færi að festa í sessi „mistökin við Hringbraut“. Hann sagði það ákvörðun sem ætti eftir að reynast samfélaginu dýr.

„Á sama tíma og læknaritið Lancet útnefndi íslenska heilbrigðisþjónustu þá bestu í heimi er heilbrigðisráðherrann í óða önn við að skipta kerfinu út fyrir marxísku leiðina í heilbrigðismálum. Það er kaldhæðni örlaganna að innleiðing þessa ný-sósíalíska kerfis skuli eiga sér stað undir verndarvæng Sjálfstæðisflokksins.“

Sigmundur kom einnig inn á aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Sumt þar væri gott en að hans mati væri fráleitt að boða að bensín- og dísilbílar yrðu bannaðir eftir rúm 11 ár. 

„Ómögulegt er að segja til um hversu hratt tækninni vindur fram og hvenær allir geta reitt sig á rafmagnsbíla,“ sagði Sigmundur og bætti því við að einhverjar undanþágur yrðu fyrir fólk sem byggi á tilteknum stöðum á landsbyggðinni:

„Ætli þeir fái að koma til borgarinnar á bensínbílunum sínum eða verða þeir stoppaðir af við ný tollhlið samgönguráðherrans og sagt að hjóla að borgarlínunni?“

Hann sagði að það væri lýsandi að ein mesta útgjaldaaukning sem fyndist í fjárlagafrumvarpinu væri framlög til að fjölga pólitískum aðstoðarmönnum ráðherra. „Þetta er lýsandi vegna þess að við erum með ríkisstjórn sem snýst bara um eitt. Hún snýst bara um sjálfa sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert